En honum á ég flest að þakka

Sýningin „En honum á ég flest að þakka“: Um Erlend Guðmundsson í Unuhúsi, var sett upp í móttökurými Gljúfrasteins þann 3. júní 2023 og stendur nú yfir þar til á næsta ári. Sýningin byggir á sambandi Erlendar í Unuhúsi við Halldór Laxness, áhrif vinar á skáld og birtingarmynd áhrifanna í skáldsögunni Atómstöðinni (1948). Sýningarhönnuður er Unnar Örn Auðarson myndlistarmaður og byggir sýningin á rannsókn Sunnevu Kristínar Sigurðardóttur um Erlend Guðmundsson.

Erlendur Guðmundsson í Unuhúsi var gestgjafi og staðarhaldari í Unuhúsi á fyrrihluta 20. aldar ásamt móður sinni. Erlendur átti sérstakt og fallegt samband við vini sína og listamenn sem honum þótti skara fram úr, var bakhjarl og stuðningsmaður, umboðsaðili og gjaldkeri svo eitthvað sé nefnt. Gestaboð hans og móður hans studdi við margan sem átti ekki í önnur hús að venda og þegar leið á öldina var gestaboðið orðið að sterkri hefð listamanna sem þangað sótti hvert kvöld. Unuhús og Erlendur eru sveipuð dulúðugum blæ í bókmenntum og sögum. Gestaboðið hefur verið vettvangur fyrir umræður um pólitík, listir og menningu og þar varð til suðupottur hugmynda sem endurspeglaðist í róttækni fólksins sem það sótti. Má ætla að samkoman hafi haft gífurleg áhrif á ungan Halldór Laxness sem kom aðeins 17 ára fyrst í Unuhús og hreifst strax af anda hússins og gestgjafanum sem hann setti fljótlega í hlutverk fyrirmyndar.

Erlendur er talinn fyrirmynd organistans í Atómstöðinni og þess vegna er verkið framarlega í sýningunni, meðal annars príða tilvitnanir úr bókinni veggina. Þá er þar einnig harmóníum orgel, blóm og veggmyndir af kápum Atómstöðvarinnar. Þá er einnig að finna ljósmyndir úr Unuhúsi. Meðfram sýningunni var gefin út sýningarskrá þar sem Sunneva Kristín Sigurðardóttir og Kristín Nanna Einarsdóttir skrifa um samband þessara vina sem birtist í bréfasafni þeirra, bókmenntaverkum og þá sérstaklega í taó innblásnum organista í Atómstöðinni.

Samhliða sýningunni hljómuðu útvarpsþættir um Erlend á RÚV, „Litli rauði trékassinn“: Erlendur Guðmundsson í Unuhúsi og vinir.