Í túninu heima

Í túninu heima 1975

Í túninu heima er fyrsta minningaskáldsaga Halldórs Laxness af fjórum en þær komu út á árunum 1975-80.

Hinar eru Úngur eg var (1976), Sjömeistarasagan (1978) og Grikklandsárið (1980). Bálknum lýkur þegar hann stendur á tvítugu. Í túninu heima fjallar um fyrstu tólf árin í lífi Halldórs. Hann lýsir atburðum og aðstæðum sem leiða til þess að hann tekur þá ákvörðun að verða rithöfundur - eða öllu heldur hvernig örlögin réðu því hlutskipti hans. Hann horfir á bernskuna sem fullorðinn rithöfundur og í sögunni er enginn atburður eða staður svo lítilsverður að hann sé ekki frásagnarverður.

Fleyg orð

„Sauðfjárbúskapur tilheyrir altöðru menníngarstigi og efnahagskerfi en íslendíngar búa við nú á dögum, og á einsog háttar til núna meira skylt við skemtun eða sport en landbúnað sem takandi sé mark á, enda ekki fjármagnaður af þeim sem stunda hann fremuren symfónían, skelkur landsbygðarinnar."
(25. kafli.)

„Maður verður listamaður á því einu að vanda smáatriðin - alt hitt gerir sig sjálft."
(19. kafli.)

„Vandinn í skáldskap svo lausum sem bundnum er einsog í listdansi: eingin áreynsla má sjást, alt verður að koma einsog af sjálfu sér."
(19. kafli.)