Endurnýjaði stórbrotna íslenska frásagnarlist

Halldór og Auður með Nóbelsskjalið.

Þann 27. október 1955 komst dómnefnd Sænsku akademíunnar að þeirri niðurstöðu að Halldór Laxness hlyti bókmenntaverðlaun Nóbels. Verðlaunin hlaut hann fyrir litríkan sagnaskáldskap, sem endurnýjað hefði stórbrotna íslenska frásagnarlist. Næstu daga var nafn Halldórs Laxness á forsíðum heimsblaðanna og fögnuðu ýmsir því að dómnefndin skyldi hafa verðlaunað höfund sem enn væri í fullu fjöri. Í mörg ár hafði nafn Halldórs verið nefnt í sambandi við verðlaunin og því kom það ekki svo mjög á óvart að hann skyldi hljóta þau árið 1955.
 

Snúið við á landamærunum
Þó að nafn hans hefði verið í umræðunni átti Halldór ekki von á því að hann hlyti Nóbelsverðlaunin árið 1955. Hann hafði dvalið í Svíþjóð en var að koma til Danmerkur frá Gautaborg þegar lögreglan stöðvaði för hans. „Hvað hef ég nú gert?“ spurði hann sjálfan sig en þá höfðu honum verið gerð boð um að snúa aftur til Gautaborgar. „Var mér sagt að mikil tíðindi væru í vændum og sneri ég því við“, sagði skáldið í viðtali við Morgunblaðið eftir að hann kom heim. „Þetta var á miðvikudag. Á fimmtudag var kötturinn látinn úr pokanum. Ég var staddur hjá vini mínum, Peter Hallberg, og var hringt þangað klukkan þrjú til þess að segja mér, að ég hefði hreppt Nóbelsverðlaunin í ár. – Einhvern veginn hafði fréttin kvisazt út, því að gatan var orðin troðfull af blaðamönnum, ljósmyndurum og útvarpsmönnum langt fram á kvöld. Þá hvarf ég á brott, enda var ég hættur að sjá nokkurn skapaðan hlut eftir ljósaflóðið við myndatökurnar.“
 

Klukkuturn í hvers manns tíma og landi
Heimspressan gerði Nóbelsverðlaununum ýtarleg skil. Bandaríska stórblaðið The New York Times greindi frá því á forsíðu að Halldór hefði fengið Nóbelsverðlaunin en að hann væri ekki almennt þekktur þar í landi en hins vegar hefði Sjálfstætt fólk orðið metsölubók ársins er hún kom út í Bandaríkjunum í enskri þýðingu árið 1946. Staffan Björck, prófessor í bókmenntasögu við háskólann í Lundi skrifaði í sænska dagblaðið Dagens Nyheter: „Í dag hljómar loksins Íslandsklukkan yfir bókmenntaheiminum, eða er þessi mynd of þröng? Standa ekki verk Laxness sem klukkuturn í hvers manns tíma og landi? Þar þrumar stórklukkan um örlög manna og kynslóða í blóði, neyð og draumi. Þar gellur ádeilan hvössum beiskum hljómi. Þar kliða bjöllur gáskafullrar glettni, en ofar öllum hinum röddunum svífur söngur fugla.“

Bókmenntagagnrýnandi Morgon-Tidningen, Erwin Leiser, sagði í grein um Halldór:  „Val Sænsku akademíunnar kom ekki á óvart. Það er ástæða til að fagna því að Nóbelsverðlaun ársins falla í skaut magnþrungnum og frumlegum höfundi, sem hefur ekki þurrausið brunn sinn, hlédrægum söngvara og safaríku sagnaskáldi sem enn er í miðju fjölbreyttu og frjósömu starfi.“
 

Óvenjulega skemmtilegur mannfundur
Í blöðum og tímaritum birtust viðtöl við Halldór. Á forsíðu Þjóðviljans 28. október 1955 sagði skáldið: „Það kemur mér algerlega á óvart að ég skyldi fá nóbelsverðlaunin. Ég hafði satt að segja ekki búizt við því, þó að mikið hafi verið um það talað. Þetta gleður mig mikið, ekki aðeins sjálfs mín vegna heldur einnig af öðrum ástæðum, ekki sízt Íslands vegna.“

Sama dag birti Vísir á forsíðu fréttir af blaðamannafundi Halldórs á heimili Peters Hallberg í Gautaborg. Þar var hann spurður hvort hann sæi sér fært að fara á Nóbelshátíðina í Stokkhólmi í desember og svaraði skáldið svo: „Mér er ánægja að snæða hádegisverð með Gústaf Adolf konungi. Mér hefur verið tjáð, að það sé óvenjulega skemmtilegur mannfundur.“ Á fundinum barst talið vitaskuld að stjórnmálum: „Ég er ekki stjórnmálmaður, heldur bókmenntamaður, sem ritar skáldsögur. Menn hafa áfellst mig fyrir þrennt – kaþólsku, kommúnisma og kapitalisma. Ég er ekki lengur kaþólskur, ég er ekki kommúnisti – og hvað kapitalismanum viðvíkur verður að leita svarsins í bókum mínum, því að það er álitamál.“
 

Einstæður atburður
Á Íslandi vöktu verðlaunin að vonum mikla athygli og leituðu blöð álits manna á þeim. Jakob Benediktsson, ritstjóri Orðabókar Háskóla Íslands sagði af þessu tilefni: „Nóbelsverðlaun Halldórs Kiljans bera því órækt vitni, sem margir hafa löngu vitað, að hann er í hópi mestu rithöfunda sem nú eru á dögum. Íslendingar sem lengi hafa talið hann fremstan nútímahöfunda sinna hafa því síst skipað honum of háan sess. Nóbelsverðlaun eru einn mesti heiður sem rithöfundi fellur í skaut, og sá einstæði atburður að Íslendingur hlýtur þau varpar þeim ljóma yfir íslenzkar bókmenntir sem seint verður Halldóri Kiljan að fullu goldinn.“

Gunnar Gunnarsson skáld sagði: „Þetta er ánægjulegt fyrir Ísland. Halldór Kiljan Laxness á þessi verðlaun sannarlega skilið.“

Annar íslenskur skáldbróðir Laxness, Tómas Guðmundsson sagði: „Það eru rösk þrjátíu ár síðan ég spáði því, að Halldór Kiljan Laxness mundi fá Nóbelsverðlaunin. Reyndar vissi ég ekki þá, hvað sænsku Akademíunni er stundum ósýnt um að hugsa, en allt að einu hljóta Íslendingar að fagna af alhug þeim sóma, sem þessum öndvegishöfundi þeirra hefur loks hlotnazt.“

En það voru fleiri en Tómas Guðmundsson sem rifjuðu upp fyrri ummæli sín um að Halldór gæti þegar fram liðu stundir hlotið bókmenntaverðlaun Nóbels. Ekki ómerkara blað en The New York Herald Tribune sagði t.d. í frétt um Nóbelsverðlaunin að í júlí 1946 hefði gagnrýnandi blaðsins sagt um Sjálfstætt fólk að þetta væri „eftirminnileg skáldsaga“ sem „dag einn gæti fært Íslandi fyrstu Nóbelsverðlaunin.“
 

Merkasta sigling Laxness
Halldór Laxness hélt heim til Íslands frá Kaupmannahöfn með Gullfossi og fylgdi honum fjölmenni á skipsfjöl. Í hópnum voru vinir skáldsins í Höfn og útgefendur hans. Á hafnarbakkanum voru íslenskir stúdentar fjölmennir og hylltu þeir og aðrir Íslendingar skáldið.

Heimferð Halldórs á Gullfossi var sannkölluð sigurför, enda „merkasta sigling“ hans, eins og sagði í Tímanum. Skipið lagðist að bryggju í Reykjavík 4. nóvember og höfðu þá þúsundir landsmanna safnast saman á hafnarbakkanum til að hylla skáldið. Þar tóku til máls þeir Jón Leifs, forseti Bandalags íslenskra listamanna og Hannibal Valdimarsson forseti Alþýðusambands Íslands. Jón komst svo að orði: „Með sigri þessum breytist söknuður og sálarkvöl margra kynslóða í djúpan fögnuð. Vér minnumst þeirra íslenzku listamanna, sem féllu í valinn óbættir – allra þeirra, sem skópu listaverk hér á landi í þúsund ár, skáldanna ókunnu, sem unnu án launa og án heiðurs, buguðust í miðri baráttu við örðugustu kjör, svo að enn lifa ekki nema molar úr verkum þeirra, – svo að jafnvel sjálf nöfn höfundanna eru gleymd.“
 

Það varst þú sem gafst mér þau öll saman áður
Hannibal Valdimarsson bauð Halldór velkominn heim. Að því búnu ávarpaði skáldið viðstadda af skipsfjöl:

„Kæru landar! Ég þakka hinum mörgu, sem hafa sýnt mér vinarhug bæði með nærveru sinni hér og annan hátt þessa síðustu daga. Ég þakka Bandalagi íslenzkra listamanna, félögum mínum og sambræðrum í listinni fyrir að hafa tekið þátt í þessari móttökuathöfn. Ég þakka vinum mínum, Jóni Leifs, tónskáldið, fyrir hin hlýju orð hans í minn garð hér. Alveg sérstaklega þakka ég íslenzku alþýðusamtökunum fyrir að heiðra mig hér á þessum morgni.  Ég þakka forseta þess fyrir þau orð, sem hann hefur látið falla hér í minn garð. Og vil ég um leið og ég þakka alþýðu Íslands – enn einu sinni fara með ofurlitla tilvitnun, sem ég hef stundum haft tækifæri til að fara með áður, um skáld, sem hefur sent ástmey sinni ljóð – ljóðasyrpu – þegar hún þakkaði honum fyrir þau, segir hann þessi orð í ljóðum: „Þakka þú mér eigi fyrir þessi ljóð, það varst þú, sem gafst mér þau öll saman áður.“  Þessi staðreynd haggast ekki þó óvænt sæmd hafi borist mér að höndum frá merkri erlendri stofnun, og vil ég þakka þjóð minni, – þakka íslenzkri alþýðu hér á þessum vonglaða haustmorgni, og ég vil biðja henni velfarnaðar um ókomnar tíðir.“