Þegar Halldór sá föður sinn í síðasta sinn

Halldór Laxness fjögurra ára með foreldrum sínum, Sigríði Halldórsdóttur og Guðjóni Helga Helgasyni, vegaverkstjóra.

Hinn 10. október árið 1919 sendi Halldór Laxness móður sinni, Sigríði Halldórsdóttur, bréf frá Kaupmannahöfn þar sem hann vék að föður sínum sem lést 19. júní það ár. Þar skrifaði hann að það liði varla svo klukkutími að hann hugsaði ekki til föður síns og sig dreymdi hann oft um nætur:

„Mig langar til að skrifa þér og segja þér frá því, þegar ég sá hann í síðasta sinn. Það var á annan í hvítasunnu. Þá var byrjað að prenta bókina mína, og ég átti að lesa fyrstu prófarkirnar daginn eftir. Það var indælt veður, sólskin og vorhlýja, og léttar áleiðinga-skúrir öðru hverju. Um miðdaginn datt mér í hug, að það væri annars gaman að skreppa upp að Lágafelli, því að það átti að vera þar altarisganga og messugjörð. Ég náði í þrjá kunningja mína og var Hagalín einn af þeim og keyrðum við svo upp eftir í bíl og lá vel á okkur eins og þú getur nærri. Við komum í kirkjuna í miðri prédikun og stóðum þar meðan á athöfninni stóð. Ég skyggndist um eftir pabba, en sá hann ekki, en bjóst þó við að hann væri þar, og ég mundi finna hann eftir messu. Svo í messulokin kom hann til okkar, við stóðum við loftsdyrnar öðru megin. Hann heilsaði upp á okkur svo hægur og glaður eins og altaf, og þótti gaman að hitta okkur, hann vildi endilega útvega okkur kaffi og fór með okkur inn til Boga og lét okkur alla fá kaffi og kökur og sat hjá okkur og spjallaði við okkur svo ljúfur og góðmannlegur eins og var sérkenni hans. Svo fór hann út, því það átti að verða safnaðarfundur í kirkjunni eftir messu, og hann varð að vera þar við, og bað mig svo að koma þangað og kveðja sig þegar ég færi. Ég fór svo út í kirkju, bændurnir sátu þar allir, hann í innsta bekknum. Okkur óraði ekki fyrir því þá, að 17 dögum seinna yrði líkami hans dáinn, borinn út úr kirkjunni og lagður niður í garðinn. Ég spurði hvort hann vildi tala dálítið við mig úti í kirkjudyrunum og gengum við svo þangað. Ég spurði hann hvort hann gæti hjálpað mér um fyrir bílferðinni, og gaf hann mér tíu krónur. Svo þakkaði ég honum fyrir glaður og kvaddi hann og bað að heilsa heim. Hann rétti vingjarnlega höndina sína, sem ég aldrei gleymi og sagði: „Vertu nú sæll Dóri minn." Við kvöddumst í kirkjudyrunum og ég sá hann aldrei framar."