Undir Helgahnúk

Undir Helgahnúk 1924

Í maí árið 1924 kom út skáldsagan Undir Helgahnúk. Hún var fyrsta bókin sem merkt var Halldóri Kiljan Laxness en þegar Barn náttúrunnar kom út titlaði höfundurinn sig Halldór frá Laxnesi.

Halldór skrifaði Undir Helgahnúk í klaustrinu í Clervaux í Lúxemborg veturinn 1922-23. 

Það vekur athygli við bókina að henni fylgir nokkuð ýtarlegur inngangur um Snjólf Ásgrímsson og Kjartan Einarsson sem Halldór kallar útdrátt úr heilli bók. „Sú bók hefur annars verið látin í drögum, og mun ekki koma fyrir almenníngssjónir í heild," segir í formála bókarinnar. Þá nefnir hann í formálanum að til sé í drögum önnur bók um Atla Kjartansson, son Kjartans Einarssonar, en óvíst sé hvort unnið verði úr þeim frekar. Af því varð raunar ekki.

Meginsagan fjallar um Atla Kjartansson sem vill verða mikilmenni. Hann er prestssonur en glatar trúnni og trúir á mátt sinn og megin. Æskuvinkona hans er Áslaug, dóttir Snjólfs Ásgrímssonar, en hún heldur sinni barnatrú. Sögunni lýkur með eins konar uppgjöri þeirra þar sem þau koma sér saman um að heimurinn sé þrátt fyrir allt yfirnáttúrlegur og eitthvert hátíðlegt ævintýri felist á bak við dagana.

Fleyg orð

„Hann vissi til dæmis að öll trúarbrögð voru heilaspuni og þvættíngur, sem þeir er betur vissu, af einhverjum ástæðum, brúkuðu til þess að blekkja með börn og fáráðlínga, og að kristna trúin var síst betri en önnur. Sömuleiðis vissi hann nú með vissu að einginn guð var til og vafasamt hvort guðspjöllin í Nýatestamentinu voru annað en skáldsögur frá upphafi til enda og að sköpunarsagan var ekki annað en þjóðsaga úr gyðíngadómi; mennirnir voru verk tilviljunarinnar og fæddust til þess að þjást og deya."
(37. kafli. Atli.)

„Ást er hugtak handa nýfermdum úngmeyjum. Fullorðið fólk hugsar yfirleitt hvorki né talar um slíkt."
(Inngángur. Snjólfur.)

„Hamíngjan er einsog dádýr ? Þegar veiðimaðurinn hefur skotið það, þá kastar hann boganum og hallar sér út af mitt inni í skóginum og sofnar af leiða yfir því hvað lífið er óendanlega snautt."
(20. kafli. Jóhanna (móðir Atla).)