Um þrifnað

Fræg mynd af Halldóri í Los Angeles en þar dvaldist hann frá 1927-8.

Í lok ágúst árið 1929 skrifaði Halldór Laxness kafla í Alþýðubókina sem nefnist „Um þrifnað" en þá var hann staddur í Los Angeles. Þar fer hann mörgum orðum um óþrifnað þjóðar sinnar á ýmsum sviðum.

„Þótt alkunnugt sé að íslendíngar eru náttúraðir fyrir óþverraskap, spillir ekki að ámálga þessa heimsfrægð vora einu sinni enn. Verður þá fyrst að minnast á þá ósvinnu sem lýsir sér í leti þeirra að hirða líkama sinn. Það er ekki liðinn nema röskur mannsaldur síðan kaupmaður nokkur fyrir norðan varð nafnkunnur út um sveitir fyrir „að nudda andlitið á sér upp úr vatni á hverjum morgni“. Á þessari öld hafa íslendíngar þó komist svo lángt að nudda á sér andlitið upp úr vatni einu sinni á dag. Hitt er fágæt undantekníng að íslendíngur hafi þá daglegu reglu að þvo sér um líkamann, enda eru baðker sjaldsénir gripir á Íslandi, og fátt þykir útlendum ferðamönnum eftirminnilegra þaðan en það dæmalausa fyrirkomulag að fram til þessa hafa ekki verið til einföldustu baðáhöld í neinu íslensku gistihúsi. ... Hreinn líkami veldur þokkalegu sálarlífi. Menn fara að hugsa bjartara; menn fara að vilja fegur. Hreinir menn eru geðslegir í umgeingni. Viti maður sig geðslegan fyrir sjálfum sér verður hann ósjálfrátt geðslegur gagnvart öðrum. Maður sem veit sig ógeðslegan með sjálfum sér hagar sér ruddalega gagnvart öðrum. Sóðaskapur og ókurteisi helst í hendur.“

Eftir að hafa farið yfir hreinlætismál líkamans snýr hann sér að tönnunum: „Það er einn átakanlegastur misbrestur í uppeldi íslenskrar alþýðu að hún lærir ekki að hirða tennur sínar. Hvar sem ég hef verið samvistum við fólk sömu stéttar í Evrópu og Ameríku, hef ég þóst taka eftir því, að eitt af frumboðorðum þess væri tannhirðíng. Það boðorð ætti að standa á fremstu blaðsíðu í hinu kristilega íslenska barnalærdómskveri. Í menníngarlöndum kenna foreldrar börnum sínum hirðíngu munns og tanna um leið og þau kenna þeim að baða sig. ... Fyrir utan þann heilsuspilli sem leiðir af vanhirðíngu tanna og skemdum, þá eru skemdar tennur og vanhirtar hinn mesti viðbjóður. Maður með spiltar og óhreinar tennur er ekki húsum hæfur, þótt hann tali í spakmælum og orðskviðum. Menn með grænar og svartar tennur og brendar geiflur ættu að varast að láta sjá sig innanum fólk. Lyktin útúr þeim er afskapleg. Mörg íslensk stúlka hefur orðið af góðu gjaforði, af því að hún gleymdi að hreina á sér munninn eftir að hafa borðað fist, en stúlka með óhreinar og skemdar tennur er ekki als ekki markaðshæf. ... Ein orsökin til þess hve íslendíngum hættir til að nota andstyggilegan munnsöfnuð er vafalaust meðvitund þeirra um að munnur þeirra sé skemdur og óhreinn.“

Halldór víkur einnig að hrækingum landsmanna og klæðaburði en um hann segir hann meðal annars: „Klæðnaður íslenskra verkamanna er tíðum áþekkari tötrum ölmusumanna, flakkara eða galeiðuþræla en frjálsra manna“. Í framhaldi af þessu fjallar hann um híbýli alþýðunnar sem hann kallar „þjóðmenníngarlegt hneyksli“: „Nú hefst enn hið gamla viðlag um húsakynni íslenskrar alþýðu, hve svívirðileg þau eru. Þau hafa sér ekkert til málsbóta frá neinu sjónarmiði, - stíllaus að utan og innan, skjóllaus, köld, saggasöm, sóðaleg, þægindalaus, húsgagnalaus. Maður með ærlegar taugar hlýtur að fyllast hryllíngi að litast um á íslensku meðalheimili innan alþýðustéttar“.