Íslandsklukkan kom út í þremur hlutum á árunum 1943-46 er Ísland var að öðlast sjálfstæði undan Dönum og kvað hér við nýjan tón á ferli Halldórs Laxness.Halldór tók nú að ræða við samtíð sína með því að rita sögulega skáldsögu og í verkinu lýsir hann öllu utan frá, útskýrir aldrei hvað persónum býr í huga, lætur þær lýsa sér með orðum sínum en beitir einnig umhverfislýsingum markvisst í því skyni. Íslandsklukkan var fyrsta bók Halldórs Laxness sem naut almennrar hylli hér á landi.
Halldór Laxness styðst mjög við sögulegar heimildir í Íslandsklukkunni og víkur í engu frá sögulegum staðreyndum svo stingi í augu, þótt hann túlki fortíðina á sinn hátt, sveigi hana undir lögmál skáldskaparins. Aðalpersónur Íslandsklukkunnar eiga sér allar sögulegar fyrirmyndir en kveikjan að henni er bréf sem Jón Helgason prófessor í Kaupmannahöfn sýndi Halldóri árið 1924. Bréfið sendi Jón Hreggviðsson Árna Magnússyni handritasafnara árið 1708 þar sem hann lýsir glímu sinni við réttvísina. Jóni varð það á að stela snæri og má segja að sagan greini frá því hvernig valdið rís einstaklingi yfir höfuð. Snæfríður Íslandssól, dóttir Eydalíns lögmanns, heldur fram heiðri landsins; hann er það sem allt snýst um. Hún sjálf skiptir ekki máli ef sómi lands og ættar er í húfi. Arnas Arnæus handritasafnara er hægt að túlka sem harmsögulega hetju: hann svíkur það sem honum er kærast til að öðlast það sem hann sækist eftir - en glatar því engu að síður. Jón er mest áberandi í fyrsta bindinu, Íslandsklukkunni, í Hinu ljósa mani beinist kastljósið að Snæfríði og Arnas er í aðalhlutverki í Eldi í Kaupinhafn.
