Úr fórum Péturs Péturssonar þular.
Halldór Laxness mun hafa orðið til þess fyrstur íslenskra rithöfunda að róma útvarp og áhrif þess í ritsmíðum og ljóðum. Löngu fyrir daga íslensks útvarps vakti Halldór athygli alþýðu á yfirburðum nýrrar tækni sem væri að ryðja sér til rúms, m.a. í grein í Verði, vikublaði Kristjáns Albertssonar.
Þeir, sem lesið hafa bernskuminningar Halldórs Kiljans Laxness, minnast þess að amma Halldórs tekur öllum tækninýjungum með fyrirvara. Henni er lítt gefið um vatn, sem rennur upp í móti og kemur úr krönum, trúir ekki tíðindum sem berast símleiðis. Að sama skapi og amman er fastheldin við forna siði og gefur ekki um tækni er skáldið unga ákafur framfarasinni og nýjungagjarn. Sjálfur færði hann sér tæknina í nyt og féllst á tilmæli frumherja í útvarpsrekstri, Ottós B. Arnar og félaga hans, um að flytja erindi í útvarpsstöð hlutafélagsins sumarið 1926. Þar sagði hann þjóð sinni til syndanna: „Íslendingar eru sem stendur siðspilltir af pólitísku kjaftæði og pólitísku götuhornaskítkasti,“ en íslenska þjóðin hefði „mörg skilyrði til að verða merkilegasta þjóðin í Norðurálfu í staðinn fyrir að nú verðum vér að sætta oss við að vera ómerkilegasta þjóðin í Norðurálfu.“