Bókmenntahátíð í Reykjavík hefst í næstu viku nánar tiltekið miðvikudaginn 8. september og henni lýkur laugardaginn 11. september. Von er á erlendum rithöfundum, skáldum, blaðamönnum og útgefendum til landsins en auk þeirra koma íslenskir höfundar fram á hátíðinni. Hér á vef Bókmenntahátíðar í Reykjavík eru höfundarnir sem taka þátt í hátíðinni að þessu sinni kynntir til sögunnar.
Bókmenntahátíð í Reykjavík er nú haldinn í fimmtánda sinn og segir á vef hátíðarinnar að hún sé helsti viðburðurinn í íslensku bókmenntalífi og hafi verið það síðan árið 1985. Þá þyki hún meðal merkustu bókmenntahátíða í Evrópu. Nálægð við lesendur sé aðalsmerki hátíðarinnar og er hún opin öllum og ókeypis inn á alla viðburðina.
Hér má sjá dagskrá hátíðarinnar.
Rithöfundar, blaðamenn og útgefendur sem taka þátt í hátíðinni munu heimsækja Gljúfrastein í næstu viku en safnið er eitt af bakhjörlum bókmenntahátíðarinnar. Á hátíðinni verður greint frá því hver hlýtur Alþjóðleg bókmenntaverðlaun sem kennd eru við Halldór Laxness. Þau verða nú afhent í annað sinn en það var breski rithöfundurinn Ian McEwan sem hlaut verðlaunin árið 2019.
Forsætisráðuneytið, mennta- og menningamálaráðherra, Íslandsstofa, Forlagið, sem er útgefandi verka Halldórs Laxness á Íslandi, Gljúfrasteinn og Bókmenntahátíð í Reykjavík standa að verðlaununum.