Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra tilkynnti nú rétt í þessu hvaða rithöfundur hlyti alþjóðleg bókmenntaverðlaun kennd við Halldór Laxness. Fyrir valinu varð breski rithöfundurinn Ian McEwan. Hann gat ekki veitt verðlaununum viðtöku og var þakkarræðan sýnd á skjá á málþingi um Halldór Laxness sem haldið var í dag í Veröld, húsi Vigdísar. Von er á Ian McEwan til Íslands í september. McEwan er fæddur í Aldershot á Englandi árið 1948. Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, þar á meðal Booker verðlaunin. Alþjóðlegu bókmenntaverðlaunin sem kennd eru við Halldór Laxness eru nú veitt í fyrsta sinn en að þeim standa forsætisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðherra, Íslandsstofa, Forlagið, sem er útgefandi verka Halldórs Laxness, og Gljúfrasteinn, auk Bókmenntahátíðar í Reykjavík.