Þegar líður á haustið færist í aukana að skólahópar heimsæki Gljúfrastein. Að undanförnu hafa nokkrir slíkir hópar komið. Á síðustu dögum hafa til að mynda þrír sjöundu bekkir úr Hofsstaðaskóla í Garðabæ heimsótt safnið og fræðst um líf og störf Halldórs sem rithöfundar ásamt því að fá innsýn í heimilislífið á Gljúfrasteini í tíð Auðar og Halldórs.
Það er kærkomin tilbreyting fyrir bæði kennara og nemendur að komast út fyrir skólastofuna endrum og sinnum og nota jafnvel önnur skilningarvit: fá að snerta, skynja og upplifa hlutina á annan hátt. Frá því að safnið opnaði hafa skólahópar á öllum aldri heimsótt Gljúfrastein. Boðið er upp á sérsniðnar heimsóknir fyrir hvert og eitt aldursstig. Nauðsynlegt er að bóka skólaheimsóknir en aðgangur er ókeypis.
Markmið með skólaheimsóknum á Gljúfrastein er að:
- vekja áhuga á Halldóri Laxness, ævi hans, verkum og fjölbreyttum áhugasviðum
- bjóða skólum upp á hentuga og áhugavekjandi námskosti byggða á upplifun og leik
- heimsóknin verði kveikja að skapandi hugsun og hvati til að lesa, skrifa, teikna, mynda, yrkja og tjá sig með öllu mögulegu móti.