Salka Valka í öndvegi á Gljúfrasteini  

20/04 2022

Í ár eru 120 ár liðin frá fæðingu Halldórs Laxness sem fæddist í Reykjavík þann 23. apríl 1902. Þeim tímamótum verður fagnað með ýmsu móti og má búast við lífi og fjöri á Gljúfrasteini um helgina.  

Dagskráin hefst kl. 10 á laugardaginn með göngu um Mosfellsdalinn þar sem Bjarki Bjarnason, leiðsögumaður og rithöfundur leiðir hópinn um æskuslóðir Halldórs Laxness frá Mosfellskirkju að Gljúfrasteini. Sama dag verður sýningin Salka Valka 90 opnuð og útgáfu bókarinnar Jagúar skáldsins eftir Óskar Magnússon fagnað. Á sunnudaginn verður ókeypis inn á safnið og gestum gefst kostur á að skoða sýninguna um Sölku Völku, ganga um Gljúfrastein og hlýða á tónlist úr hljómplötusafni skáldsins.  

 

Laxnessganga 

Í tengslum við bókmennta- og heilsuátakið #Laxness120 verður boðið upp á göngu um Mosfellsdal á fæðingardegi Halldórs Laxness, 23. apríl. Safnast verður saman við Mosfellskirkju kl. 10 og þaðan verður gengið að Gljúfrasteini, með viðkomu á völdum stöðum. Bjarki Bjarnason, rithöfundur og leiðsögumaður mun leiða gönguna. Göngufólk getur átt von á að heyra lesin stutt brot úr verkum Halldórs Laxness og hlýða á fróðleiksmola um uppvaxtarár skáldsins í dalnum. Gert er ráð fyrir að gangan muni taka um tvo tíma. 

 

#Laxness120 

Bókmennta- og heilsuátakinu #Laxness 120 lýkur á laugardaginn með beinni útsendingu á Zoom úr stofunni á Gljúfrasteini. Streymið hefst kl. 11 með opnun og kynningu frá Elenore Guðmundsson og Reyni Eggertssyni sem staðsett eru í Vínar- og Helsinki- háskólum. Þá mun Dagný Kristjánsdóttir fjalla um Sölku Völku og Halldór Guðmundsson um ævi og verk Halldórs Laxness. Viðburðurinn fer alfarið fram á Zoom og verður á ensku. #Laxness120 er samstarfsverkefni Gljúfrasteins, Stofnunar Árna Magnússonar og Bókmenntaborgarinnar. 

 

Salka Valka 90 

Í tilefni af 90 ára útgáfuafmæli Sölku Völku hefur verið sett upp sýning í móttökunni á Gljúfrasteini. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra mun opna sýninguna þar sem gefur að líta ljósmyndir sem veita innsýn í sögusvið verksins og í kringum 50 mismunandi bókakápur.  

Salka Valka kom út í tveimur hlutum á árunum 1931-1932. Fyrri bókin, Þú vínviður hreini, kom fyrst út árið 1931 og seinni bókin, Fuglinn í fjörunni á afmælisdegi Halldórs Laxness 23. apríl 1932 þegar hann var þrítugur. Salka Valka er fyrsta skáldsaga Halldórs Laxness sem þýdd var á erlent tungumál en hún hefur nú verið þýdd á 25 tungumál og gefin út í fjölda útgáfna.  

Hönnuður sýningarinnar er Ragnar Helgi Ólafsson, rithöfundur og myndlistarmaður.  Sýningin hlaut styrk frá safnasjóði

 

Jagúar skáldsins 

Út er komin bókin Jagúar skáldsins. Þar hefur rithöfundurinn Óskar Magnússon safnað saman dásamlegum skemmtisögum af bílnum og eiganda hans, Halldóri Laxness, en hann kynntist báðum og hlutaðist nokkuð til um samferð þeirra.  

 

Ókeypis á safnið á sunnudaginn 

Ókeypis verður á inn safnið á sunnudaginn milli kl. 10 og 16. Í móttökunni stendur yfir sýningin um Sölku Völku og í stofunni verður tónlist úr hljómplötusafni skáldsins á fóninum. Þá má hlýða á upptöku af lestri Halldórs Laxness á lokakafla Sölku Völku á efri hæðinni. Öll hjartanlega velkomin.  

Athugið að bílastæðin við Gljúfrastein eru fljót að fyllast en við bendum á að hægt er að leggja við Jónstótt sem staðsett er hinum megin við Köldukvísl.