Í fyrra höfðu íslenskukennarar við nokkra erlenda háskóla frumkvæði að bókmennta– og heilsuátakinu Laxness119. Nemendur voru hvattir til að taka þátt með því að lesa og ekki síður að stunda hreyfingu. Lesa, ganga, skokka, hlaupa eða hjóla á tímabilinu frá 8. febrúar, sem var dánardagur Halldórs Laxness, til 23. apríl, sem er afmælisdagur skáldsins.
Nú hafa íslenskukennararnir ákveðið að endurtaka átakið og vilja nú líka hvetja almenning til þátttöku í Laxness120. Áhugasömum er benta á að skrá sig í facebook hóp átakstins.
Salka Valka verður í öndvegi að þessu sinni, en bókin fagnar 90 ára afmæli um þessar mundir, þar sem hún kom út í tveimur hlutum, 1931 og 32. Ásamt því að lesa bókina eða önnur verk Laxness getur fólk t.d. skokkað, hlaupið eða hjólað 120 kílómetra á tímabilinu 8. febrúar til 23. apríl sem er lokadagur átaksins, meðan aðrir ætla til dæmis að sippa 120 sinnum á dag á tímabilinu. Þátttakendur eru hvattir til að deila myndum og færslum á Facebook, Instagram eða Twitter og nota myllumerkið #laxness120.
Átakið er unnið í góðu samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem hefur umsjón með kennslu í íslensku og þjónustu við háskólakennara í íslensku við erlenda háskóla af hálfu íslenskra stjórnvalda. Bókmenntaborgin leggur þessu skemmtilega átaki einnig lið með öflugu kynningarstarfi.
Verkefninu lýkur á afmælisdegi Halldórs Laxness 23. apríl með því að boðið verður upp á göngu frá Mosfellskirkju að Gljúfrasteini. Gangan hefst kl. 10 og verður auglýst betur þegar nær dregur.