Gljúfrasteinn - safn í tíu ár

04/09 2014

Gljúfrasteinn að sumarlagi


Í dag eru tíu ár liðin frá því að Gljúfrasteinn opnaði sem safn. Tíminn hefur liðið hratt og hafa rúmlega 70 þúsund gestir heimsótt safnið á þessu tímabili eða um 7000 gestir á ári.

Verk Halldórs Laxness lifa góðu lífi. Til marks um það seljast verk hans víða um heim og nýjar þýðingar hafa komið út reglulega á undanförnum árum. Óhætt er að fullyrða að verk skáldsins eigi sérstakan stað í hjörtum og hillum landsmanna. Grunnurinn að því er meðal annars lagður í framhalds- og grunnskólum landsins þar sem nemendur lesa verk Halldórs og kynna sér höfundarverk hans, svo sem með heimsókn á Gljúfrastein samhliða lestri verka hans.

Arfleifð Halldórs liggur víða; fyrst og fremst í verkum hans en einnig í handritum sem varðveitt eru á Landsbókasafni Íslands, hjá Ríkisútvarpinu þar sem varðveittar eru upptökur með upplestrum skáldsins ásamt fjölda þátta og viðtala sem tengjast skáldinu og rannsóknum á honum. Í safninu á Gljúfrasteini er heimili Halldórs og fjölskyldu hans varðveitt, en það var einnig vinnustaður hans og sá staður þar sem mörg verk hans urðu til og mótuðust.

Í lok ágúst opnaði Gljúfrasteinn sýningu um Auði Sveinsdóttur Laxness, eiginkonu Halldórs, í Listasal Mosfellsbæjar. Eru það ákveðin tímamót í starfsemi safnsins. Í fyrsta sinn er Auður í forgrunni. Sýningin byggir á ýtarlegri rannsókn á arfleifð Auðar sem birtist í meistararitgerð Mörtu Guðrúnar Jóhannesdóttur.

Það er við hæfi að minnast þessara tímamóta með sérstakri sýningu um Auði, enda var það hún sem hafði forgöngu um að til varð safn á Gljúfrasteini. Þann 23. apríl 2002 undirritaði hún samning um sölu á Gljúfrasteini og listaverkum fjölskyldunnar. Við sama tækifæri var undirritað gjafabréf þar sem hún gaf þjóðinni allt innbúið á Gljúfrasteini, handrit og bókasafn Halldórs Laxness. Gjöfin var ómetanlegt innlegg í menningararfleifð þjóðarinnar enda tryggði hún aðgengi komandi kynslóða að ævistarfi skáldsins. Af þeim sökum fylgir því mikil ábyrgð að taka við svo höfðinglegri gjöf, varðveita hana, rannsaka og miðla.

Á upphafsárum safnsins hafði Auður mikilvægu hlutverki að gegna. Hún miðlaði upplýsingum um lífið á Gljúfrasteini, sagði sögur gripa og rifjaði upp skemmtileg atvik. Með sýningunni sem henni er helguð tekst Gljúfrasteini að breikka starfsemi sína – færa út kvíarnar og sýna hluta þess safnkosts sem til er á safninu og hefur ekki verið sýnilegur áður.

Húsið á Gljúfrasteini setur starfseminni ákveðnar skorður vegna þess að það sjálft er sýningargripur og rými til annarrar starfsemi eins og sýningarhalds, rannsókna og rekstur safnbúðar afar takmarkað. Sú sýning sem er á Gljúfrasteini er heimilið sjálft og því ekki rými til að setja upp sérstakar sýningar nema í samstarfi við aðra. Ekkert rými er heldur fyrir kaffiaðstöðu. En Auður var einmitt margrómuð fyrir gestrisni og að hafa heitt á könnunni nánast allan sólarhringinn. Áður en safnið opnaði 2004 voru uppi hugmyndir um að safnið þyrfti annað húsnæði í nágrenninu. Vilji var fyrir því af hálfu ríkisins. Reynt var til þrautar að finna húsnæði sem hentaði en því miður var það ekki mögulegt á þeim tíma. Því var brugðið á það ráð að opna móttöku í gamla bílskúrnum. Bílskúrinn hefur því þjónað hlutverki móttökuhúss frá því 2004. Oft er þröngt á þingi þar inni því þegar stórir hópar heimsækja Gljúfrastein þarf að skipta þeim niður svo allir fái notið heimsóknarinnar. Svo safnið geti sinnt starfsskyldum sínum sem meðal annars eru fólgnar í því að taka á móti hópum af öllum skólastigum er brýnt að bæta úr.

Starfsfólk Gljúfrasteins á heiður og þakkir skyldar fyrir vinnu sína í krefjandi vinnuumhverfi. Vinnuaðstaða er í móttökunni þ.e. bílskúrnum og í lítilli kompu inn af hitaveitugeymslunni en þar er líka fundaraðstaða starfsfólks. Þrátt fyrir erfiðar vinnuaðstæður hefur safnið á Gljúfrasteini tekið þátt í fjölda verkefna og staðið fyrir rannsóknum, sýningum, málþingum og stofutónleikum. Í febrúar á þessu ári veitti Mennta- og menningarmálaráðherra Gljúfrasteini viðurkenningu að fenginni tillögu Safnaráðs. Viðurkenningin er staðfesting þess að safnið standist ákveðin skilyrði samkvæmt safnalögum nr. 14/2011.

Til þess að tryggja framtíð Gljúfrasteins – húss skáldsins verður að huga að frekari uppbyggingu og finna leiðir til að mæta kröfum samtímans og síðast en ekki síst, að virða þessa dýrmætu gjöf og tryggja að þjóðin fái að njóta hennar um ókomna tíð.