Sunnudaginn 12. ágúst 2012 kom Trio Lyrico fram á Gljúfrasteini. Tríóið samanstendur af Ástu Maríu Kjartansdóttur sellóleikara, Ingileifu Bryndísi Þórsdóttur píanóleikara og Lilju Guðmundsdóttir sópransöngkonu. Þær munu leika og syngja saman nokkur lög, bæði íslensk og erlend í útsetningum fyrir píanó, selló og sópran.
Ásta María Kjartansdóttir byrjaði átta ára gömul að læra á selló í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og naut þar kennslu Bryndísar Björgvinsdóttur. Fjórtán ára fékk hún inngöngu í Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem Gunnar Kvaran var kennarinn hennar í þrjú ár. Árið 2008 lauk hún síðan burtfararprófi undir handleiðslu Sigurgeirs Agnarssonar. Í september 2008 hóf Ásta María nám við Konservatorium Wien og er Cecilia Ottensamer aðalkennarinn hennar í dag. Ásta María hefur sótt tíma hjá Erling Blöndal Bengtson, Heidi Litschauer, Erkki Lahesma og Walther Schulz. Einnig hefur hún sótt kammertíma hjá Altenberg Tríóinu, Hugo Wolf kvartettinum og Sigurbirni Bernharðssyni.
Ingileif Bryndís Þórsdóttir lauk burtfararprófi í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2007 undir leiðsögn Svönu Víkingsdóttur. Þá lá leið hennar til Freiburg í Þýskalandi, þar sem hún vann undir handleiðslu Andreas Immer og Hans-Peter Müller, prófessors í ljóðaundirleik. Hún útskrifaðist þaðan með bachelorgráðu vorið 2011 og stundar nú meistaranám við sama skóla. Aðalkennarar hennar eru Andreas Immer og Roglit Ishay. Ingileif hefur sótt námskeið bæði á Íslandi og erlendis, meðal annars hjá Nelita True, Lilli Skauge-Raeburn og Önnu Málfríði Sigurðardóttur.
Lilja Guðmundsdóttir byrjaði ung að læra á þverflautu og píanó en snéri sér að söngnum 16 ára gömul. Árið 2006 útskrifaðist hún með framhaldspróf frá Tónlistarskólanum á Akureyri þar sem Sigríður Aðalsteinsdóttir var hennar aðalkennari. Á árunum 2006 til 2010 stundaði Lilja nám við Söngskóla Sigurðar Demetz, eitt ár hjá Jóni Þorsteinssyni en síðan hjá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Gerrit Schuil píanóleikara. Lilja sótti á þessu tímabili masterclass námskeið hjá Galinu Pisarenko, Bjarna Thor Kristinssyni, Lorraine Nubar og Dalton Baldwin á Íslandi og í Frakklandi. Þá var Lilja félagi í aðalkór Íslensku óperunnar 2008-2010. Vorið 2010 hlaut Lilja styrk til frekara náms úr minningarsjóði Sigurðar Demetz og stundar nú mastersnám í Konservatorium Wien undir leiðsögn Uta Schwabe.
Hér fyrir neðan má sjá Trio Lyrico á tónleikum.