Sunnudaginn 29. júlí fluttu Guðný Jónasdóttir og Elisabeth Streichert verk eftir Beethoven og Piazzola fyrir selló og píanó á stofutónleikum Gljúfrasteins.
Á efnisskránni voru Sónata fyrir píanó og selló í C-dúr op. 102 nr.1 eftir Beethoven og Le Grand Tango eftir Piazzola. Snögg skapskipti í Beethoven og ástríðan í suðræna tangónum mynda skemmtilegar andstæður. Þrátt fyrir að vera ólík verk frá ólíkum menningarheimum henta þau sellóinu einstaklega vel.
Ludwig van Beethoven (1770-1827) var eitt af fyrstu tónskáldum rómantísku bylgjunnar. Beethoven starfaði lengst af í Vín og samdi þar sín helstu verk, en á þrítugsaldri fór heyrn hans að daprast. Beethoven hélt áfram að semja jafnvel eftir að hafa misst heyrn sína algjörlega og er í dag eitt frægasta tónskáld vestrænnar listasögu.
Ástor Pantaleón Piazzola (1921-1992) var argentískt tangótónskáld. Hann umbreytti hefðbundinni tangótónlist og skapaði nýjan stíl, nuevo tango, þar sem hann fékk að láni tóna og stílbrigði djass og sígildrar tónlistar.
Guðný Jónasdóttir hóf nám sitt við Tónlistarskólann í Reykjavík. Árið 2006 útskrifaðist hún með B.Mus gráðu frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Hún hefur stundað nám við Universität der Künste í Berlín, Musikhochschule Lübeck og sótt kammermúsíktíma hjá Artemis kvartettnum. Haustið 2011 hóf Guðný meistaranám við Royal Academy of Music í London. Guðný hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ungfóníu og spilað reglulega með Orkesterstudio Lübecker Philharmoniker. Ásamt því að vera virkur kammermúsíkant hefur hún einnig spilað og frumflutt mikið af samtímatónlist.
Elisabeth Streichert er fædd í Þýskalandi. Í æsku vann hún til fjölda verðlauna bæði á fiðlu og á píanó í innlendum keppnum, svo sem Jugend musiziert og Thürmer Klavierwettbewerb Bochum. Elisabeth lærði í Musikhochschule Lübeck og stundar nú meistaranám við Royal Academy of Music í London. Elisabeth spilar reglulega tónleika í Þýskalandi og Evrópu og hefur leikið einleik með mörgum hljómsveitum. Hún er eftirsóttur meðleikari og kammertónlistarmaður og er meðlimur kammerhópsins „Mirus Ensemble“ sem flytur verk fyrir tréblásara og píanó.