Hljómsveitin Melchior hefur lengi heillað landann með sinni eigin blöndu af popptónlist undir sterkum áhrifum klassískrar tónlistar en þann 26. ágúst heimsóttu þau Gljúfrastein og slógu með því botninn í tónleikaröðina árið 2012.
Melchior skipa þeir Hilmar Oddsson (lög, textar, útsetningar, hljómborð, gítar og söngur), Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson (lög, útsetningar, gítar og söngur) og Karl Roth (lög, textar, útsetningar, gítar og söngur), Gunnar Hrafnsson (bassi) og Kjartan Guðnason (trommur). Söngkona er Kristín Jóhannsdóttir.
Hljómsveitin Melchior hefur allt frá stofnun, 1973, flutt dæmigerða stofutónlist, frumsamið kammerpopp. Þótt tónlistin megi flokkast sem popp, hafa sígild hljóðfæri, s.s. selló, óbó, fiðla og víóla leikið lykilhlutverk í útsetningum og rafmögnun tónlistarinnar hefur ætið verið mjög hófleg. Þá hafa trompett og básúna notið sín vel með Melchior.
Tónlist Melchiors hefur alltaf þótt vönduð og metnaðarfull og hefur sveitin mikið lagt upp úr útsetningum, þótt þær hafi á sér yfirbragð látleysis.