Þann 15. júlí spiluðu þau Ari Þór Vilhjálmsson fiðluleikari og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari Bach, Tchaikovsky og Chausson á Gljúfrasteini
Ari Þór Vilhjálmsson útskrifaðist með einleikarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2001 eftir nám hjá Guðnýju Guðmundsdóttur. Hann hélt síðan til frekara náms í Bandaríkjunum og lærði hjá Almitu og Roland Vamos við Northwestern University, Sigurbirni Bernharðssyni við University of Illinois, Lucy Chapman with New England Conservatory of Music og var í einkatímum hjá Rachel Barton Pine í Chicago.
Ari hefur leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands (SÍ) frá árinu 2006 og tekur við stöðu leiðara annarrar fiðlu hljómsveitarinnar næsta haust. Hann hefur flutt fiðlukonserta eftir Shostakovich, Mozart, Hafliða Hallgrímsson, J.S. Bach og Saint-Saens með SÍ og fiðlukonserta eftir Brahms, Beethoven, Bruch og Prokofieff með öðrum hljómsveitum á Íslandi og í Bandaríkjunum. Nýlega hefur hann haldið einleikstónleika við Emory University í Atlanta og kammertónleika fyrir Listahátíð í Reykjavík og Kammermúsikklúbbinn. Næsta vetur mun hann taka upp Poéme eftir Chausson og Souvenir d’un lieu cher með SÍ fyrir Ríkisútvarpið.
Ari kennir hópi efnilegra fiðlunemenda við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann leikur á fiðlu smíðaða af Giovanni Maggini frá ca.1620, að láni frá Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari hóf nám við Tónmenntaskólann í Reykjavík 7 ára gömul hjá Erlu Stefánsdóttur. Hún stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík á árunum 1991-1998 hjá Jónasi Ingimundarsyni.
Í Þýskalandi stundaði hún nám við tónlistarháskólann í Freiburg og lauk þaðan Diploma kennaraprófi með ljóðasöngsmeðleik sem aukafag vorið 2004. Kennarar hennar voru Prof. Dr. Tibor Szasz í píanóleik og Prof. Hans-Peter Müller við ljóðasöngdeild. Að því loknu stundaði hún nám við tónlistarháskólann í Stuttgart undir handleiðslu Prof. Cornelis Witthoefft þar sem hún lauk sumarið 2007 sérhæfðu Diploma námi við ljóðasöngdeild skólans.
Hrönn hefur komið fram á tónleikum víða, m.a. í Þýskalandi, Austurríki, Ítalíu,Grænlandi, á Íslandi sem einleikari, meðleikari og við flutning kammertónlistar. Hún hefur tekið þátt í ýmsum hátíðum eins og Ung Nordisk Musik,Við Djúpið á Ísafirði, Myrkir músíkdagar, Berjadaga á Ólafsfirði og nú í júní á Færeyskum sumartónum í Færeyjum. Hún hefur verið virk í flutningi nýrrar tónlistar m.a. á Myrkum Músíkdögum og frumflutt ýmsa nýja tónlist með kammersveitinni Ísafold en sveitin hlaut íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins fyrir árið 2007. Einnig hafa komið út 2 geisladiskar með hljómsveitinni.
Hrönn er kennari við Söngskólann í Reykjavík og við Tónlistarskólann í Reykjavík.
Heildardagskrá stofutónleika sumarið 2012