Klarínettu- og píanótónleikar á íslenska safnadaginn

Matthías I. Sigurðsson og María Arnardóttir, klarínetta og píanó

Sunnudaginn 11. júlí 2010 var íslenski safnadagurinn. Í tilefni dagsins var frír aðgangur að safninu og einnig á stofutónleikana. María Arnardóttir píanóleikari og Matthías Sigurðsson klarínettuleikari léku verk eftir Debussy, Finzi, Stravinsky og Þorkel Sigurbjörnsson.

María og Matthías eru nýútskrifuð úr Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem þau lærðu klassíska tónlist. Þau hafa spilað saman víða, meðal annars á tveimur tónleikum í Tékklandi, á 17. júní tónleikum í Ráðhúsi Reykjavíkur auk þess að hafa haldið minni uppákomur eins og tónleika í versluninni Sævari Karli og skemmtilegan listgjörning þar sem María spilaði á melódikku. Þetta sumar urðu þau þess heiðurs aðnjótandi að fá að starfa sem einn af Listhópum Hins Hússins, þar sem þau leika létta sumartónlist auk klassískar tónlistar og lífga upp á borgina. Bæði hafa þau reynslu á öðrum sviðum tónlistar og má þar nefna að María hefur lært jazz og Matthías búlgarska þjóðlagatónlist.

Efnisskrá:

Claude Debussy:
Petite piéce
Premiére Rhapsodie

Þorkell Sigurbjörnsson: Fjögur íslensk þjóðlög
Ljósið kemur langt og mjótt
Björt mey og hrein
Yfir kaldan eyðisand
Það var barn í dalnum

Igor Stravinsky: Þrír þættir fyrir einleiksklarínettu

Gerald Finzi: Five Bagatelles
IV. Forlana 
V. Fughetta