Steinunn S. Skjenstad, sópransöngkona og Solmund Nystabakk, gítarleikari héldu tónleika á Gljúfrasteini sunnudaginn 24. ágúst. Á efnisskránni kenndi ýmissa grasa en tónleikarnir hófust á verkum Franz Schuberts við ljóð Goethe og annarra þýskra ljóðskálda. Þar á eftir voru flutt verk eftir Benjamin Britten og í endann var svo tekin þjóðlagasyrpa þar sem jafnt íslensk sem norsk þjóðlög voru flutt í útsetningu Solmunds Nystabakks.
Steinunn Soffía Skjenstad (f. 1983) lærði á fiðlu frá 6 ára aldri en hóf söngnám sitt við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Elísabetu Erlingsdóttir árið 1999. Í framhaldinu lá leiðin í Listaháskóla Íslands þaðan sem Steinunn útskrifaðist vorið 2005 og í sumar lauk hún mastersgráðu í óperusöng frá Síbelíusarakademíunni í Helsinki. Í apríl sl. söng Steinunn hlutverk Fiordiligi í Così fan tutte eftir W.A. Mozart í Óperustúdíói Íslensku óperunnar en hún hefur einnig sungið hlutverk Miss Wordsworth í Albert Herring eftir B. Britten auk fleirri hlutverka. Í október 2007 hlaut Steinunn 1. verðlaun fyrir ljóðasöng í Erkki Melartin-kammertónlistarkeppninni sem fram fór í Savonlinna, Finnlandi. Í haust heldur Steinunn til Hamborgar að nema ljóðasöng við Tónlistarháskólann þar í borg.
Norski gítarleikarinn Solmund Nystabakk (f. 1982) hóf gítarnám sitt í Bodø, N-Noregi, undir leiðsögn Mortens Hunstads. Eftir það fór hann í nám við Tónlistarháskólann í Osló og stundar nú mastersnám við Síbelíusarakademíuna í Helsinki. Solmund hefur sótt fjölda masterklassa og komið fram á einleiks-og kammertónleikum í Noregi, Finnlandi, Lúxemborg, Eistlandi, Lettlandi og Þýskalandi. Árið 2004 fór hann með sigur af hólmi í Tónlistarkeppni unga fólksins (Ungdommens musikkmesterskap) sem fram fer árlega í Osló.