Kristjana Stefánsdóttir djasssöngkona, Agnar Már Magnússon píanóleikari og Helga Björg Ágústsdóttir sellóleikari héldu tónleika á Gljúfrasteini 6. júlí 2008. Á efnisskránni mátti finna verk eftir tónskáldin Sunnu Gunnlaugsdóttur, Tómas R. Einarsson og Sigurð Flosason við ljóð ýmissa þekktra íslenskra ljóðskálda, þar á meðal Tómas Guðmundsson og Halldór Laxness.
Kristjana Stefánsdóttir lauk með láði námi í djassöng frá Konunglega Listaháskólanum í Haag í Hollandi vorið 2000 undir handleiðslu Rachel Gold, en áður hafði hún lokið söngnámi við Söngskólann í Reykjavík og sótt einkatíma hjá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Sigríði Ellu Magnúsdóttur. Kristjana hefur einnig lokið námi í söngtækni hjá Cathrine Sadolin í Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn 2005. Hún hefur haldið tónleika víða, m.a. í Hollandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Englandi, Finnlandi, Danmörku og Japan.
Agnar Már hóf tónleikanám sitt sex ára gamall við Tónlistarskóla Hafnafjarðar þar sem hann lagði fyrst stund á orgelleik en síðar píanónám. Þá lá leið hans í Tónlistarskóla FÍH þar sem hann lauk prófi í djasspíanóleik með ágætiseinkunn. Í beinu framhaldi fluttist Agnar til Hollands, þar sem hann lauk háskólaprófi í djasspíanóleik og kennslu. Agnar starfar nú sem djasspíanisti, en kennir jafnframt píanóleik við djassdeild Tónlistarskóla FÍH.
Helga Björg Ágústsdóttir sellóleikari lauk burtfararprófi frá Tónlistarskóla Garðabæjar árið 1992 undir handleiðslu Bryndísar Höllu Gylfadóttur. Þaðan lá leiðin til Hollands þar sem hún stundaði framhaldsnám við Sweelinck Conservatoríum í Amsterdam hjá Dmitri Ferschtman. Frá árinu 2000 hefur hún starfað sem kennari og hljóðfæraleikari á Íslandi. Hún kennir nú við Tónlistarskóla Garðabæjar, Nýja Tónlistarskólann og Tónskólann Doremi. Þá leikur hún reglulega með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.