Þann 1. júlí, voru ljóð Halldórs Laxness við lög eftir Jón Ásgeirsson og Atla Heimi Sveinsson í aðalhlutverki. Flytjendurnir voru góðvinir Gljúfrasteins þau Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari sem er listrænn tónlistarráðgjafi safnsins og Bergþór Pálsson sem hefur sungið í stofunni á Gljúfrasteini við ólík tækifæri.
Anna Guðný Guðmundsdóttir brautskráðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1979 og stundaði Post Graduate-nám við Guildhall School of Music and Drama með sérstaka áherslu á kammertónlist og meðleik með söng. Hún hefur starfað á Íslandi í rúma tvo áratugi og komið fram á ótal kammertónleikum, en einnig sem einleikari m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Anna Guðný kenndi við tónlistardeild Listaháskóla Íslands frá stofnun hennar 2001 til 2005 en það haust var hún ráðin píanóleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Bergþór Pálsson lauk B.M. og Masters námi frá Indiana University og leiklistarnámi frá Drama Studio London. Hann hefur farið með yfir fimmtíu hlutverk á sviði. Meðal þeirra eru titilhlutverkin í „Évgéní Ónégín“ og „Don Giovanni“. Hann hefur haldið fjölda einsöngstónleika, sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, svo og einsöngshlutverk í mörgum kórverkum.