Franskir tónar á safnadaginn

Hafdís Vigfúsdóttir, flauta og Kristján Bragason, píanó

Á safnadaginn þann 8. júlí léku þau Hafdís Vigfúsdóttir flautuleikari og Kristján Karl Bragason píanóleikari í stofunni. Þau Hafdís og Kristján Karl stunda bæði framhaldsnám erlendis um þessar mundir. Frönsk tónlist frá átjándu- nítjándu- og tuttugustu öld var í fyrirrúmi á tónleikunum en á efnisskránni voru verk eftir Jean-Marie Leclair (1697-1764), Frédéric Chopin (1810-1849) og Pierre Sancan (f. 1916).

Hafdís Vigfúsdóttir lauk burtfararprófi frá Tónlistarskóla Kópavogs haustið 2002 þar sem kennari hennar um árabil var Guðrún Birgisdóttir. Eftir það lá leið hennar í Listaháskóla Íslands þar sem hún lærði um þriggja ára skeið undir handleiðslu flautuleikarans Martials Nardeau. Þaðan útskrifaðist hún vorið 2005 með B.Mus gráðu í flautuleik. Veturinn 2005 – 2006 lærði Hafdís hjá Patrick Gallois í École National de Musique d’Aulnay Sous-Bois, í nágrenni Parísar. Frá hausti 2006 hefur Hafdís stundað nám í Conservatoire National de Région (CNR) de Rueil-Malmaison hjá Philippe Pierlot, en hann er fyrsti flautuleikari í Orchestre National de France. Hafdís hefur einnig sótt námskeið og einkatíma víða, á Englandi, Ítalíu, Frakklandi, Þýskalandi, Tékklandi og á Íslandi. Hafdís kom fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands í janúar 2005 eftir að vera annar tveggja sigurvegara í samkeppni ungra einleikara.

Kristján Karl Bragason hóf píanónám hjá Lydiu Koloszowska í Tónlistarskólanum á Dalvík en flutti sig síðar yfir í Tónlistarskólann á Akureyri þar sem hann hélt áfram píanónámi undir handleiðslu próf. Mareks Podhajski. Þaðan útskrifaðist hann vorið 2002. Þá fluttist hann til Reykjavíkur og hóf nám hjá Halldóri Haraldssyni við Tónlistarskólann í Reykjavík. Auk þess var hann í kammerhópum í Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Gunnars Kvaran. Á sumarönn 2005 var Kristján Erasmus-skiptinemi við Staatliche Hochschule für Musik í Stuttgart í Þýskalandi hjá próf. Shoshana Rudiakov. Haustið 2005 hóf hann síðan nám við  Conservatoire National de Région de Versailles hjá Eddu Erlendsdóttur. Kristján stefnir á að ljúka þaðan DEM-gráðu (diplôme d’ètudes musicales) vorið 2008. Kristján hefur sótt fjölda „masterklassa” m.a. hjá Diane Andersen, Jean-Claude Pennetier og Abdel Rahman El-Bacha. Hann hefur tekið þátt í nokkrum píanókeppnum erlendis jafnt sem heima fyrir, þ.á.m. unnið til fyrstu verðlauna í framhaldsflokki í fyrstu píanókeppni Íslandsdeildar EPTA árið 2000.

Efnisskrá:

Jean-Marie Leclair (1697-1764): 
Sónata nr. 8: 
Andante
Allegro ma non troppo
Aria – Altro
Giga

Frédéric Chopin (1810-1849): 
Barcarolle op. 60

Pierre Sancan (f. 1916): 
Sonatine