Þeir sem sitja af sér útihátíðir eða önnur ferðalög um verslunarmannahelgina 2007 þurftu ekki að láta sér leiðast þegar Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari lék á stofutónleikum.
Með henni komu fram bandaríska tónskáldið og píanóleikarinn Nico Muhly og kontrabassaleikarinn Borgar Magnason. Íslensk tónlist var í fyrirrúmi á tónleikunum sem hófust á Adagio fyrir einleiksfiðlu eftir Tryggva Baldvinsson. Verkið er samið árið 1996 fyrir Rut Ingólfsdóttur og er eitt fárra íslenskra sólóverka fyrir fiðlu. Una og Nico leika Íslenska svítu Jórunnar Viðar frá árinu 1974 fyrir fiðlu og píanó og síðan leikur tríóið eigin útgáfu af austurríska þjóðlaginu Liebesleid og íslenskri samhverfu þess, þjóðlaginu Sumri hallar. Una Sveinbjarnardóttir hefur frumflutt á Íslandi fiðlukonserta Dmitri Shostakovich, Philip Glass, Kurt Weil og Atla Heimis Sveinssonar auk fjölda kammerverka. Hún hefur leikið með Björk Guðmundsdóttur og er stofnfélagi strengjakvartettsins HUGO. Árið 2005 lék hún Beethoven fiðlukonsertinn í upptöku Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpsins og var gestakonsertmeistari Trondheim Symfoniorkester og hljómsveitar Íslensku óperunnar á síðasta ári. Geisladiskur hennar Fyrramál kemur út hjá Smekkleysu í haust og hefur m.a. að geyma hennar eigin verk. Nico Muhly lauk mastersgráðu í tónsmíðum frá Juilliard School of Music árið 2004 og hafa verk hans m.a. verið flutt af Boston Pops og American Symphony Orchestra. Hann skrifar nú fyrir Chicago Symphony MusicNOW seríuna. Hann hefur unnið náið með Philip Glass og m.a. stjórnað Einstein on the Beach við Opéra de Paris. Hann er Íslandsvinur mikill og kynntust þau Una í gegnum Björk, en Nico hefur útsett og leikið með henni. Nico var boðið að kynna kammerverk sín í Carnegie Hall þar sem hann hélt glæsilega debut-tónleika í tengslum við geisladisk sinn Speaks Volumes sem gefinn er út í Reykjavík af Bedroom Community. Borgar Magnason stundaði nám í Konservatoríinu í Brussel og starfaði sem fyrsti bassaleikari Charlemagne kammersveitarinnar í Brussel og nútímalistahópsins Ensemble 21. Hann hefur unnið að tónsmíðum við myndverk Gabríelu Friðriksdóttur, Suður, úr sýningunni Versations/Tetralógía á Feneyjatvíæringinum 2005. Hann hefur samið tónlist við dansverkið Við erum komin í félagi við Áskel Másson og starfað með Ben Frost og Daníel Ágúst Haraldssyni. Verk Borgars, Blink of an Eye í samstarfi við Brynhildi Guðjónsdóttur, Cameron Corbett og Dieterik Peters hlaut fyrstu verðlaun í Dansleikhússamkeppni Borgarleikhússins nú í sumar