Stillur - ættjarðarlög og þjóðlög í jazzútsetningum

Sunnudaginn 6. ágúst flytur Karl Olgeirsson jazzútsetningar á þjóðlögum á tónleikum í stofunni á Gljúfrasteini. Karl hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi og hefur verið tilnefndur til verðlauna fyrir kvikmyndatónlist sína og hlotið Grímu fyrir leikhústónlist og tvenn verðlaun fyrir síðustu plötu sína, Mitt bláa hjarta. 

Yfirskrift tónleikanna er „Stillur“ sem er eftir hljómplötu Karls sem kom út í október síðastliðinn. Á plötunni fá gamalkunn lög að hljóma frá sjónarhorni Karls. „Hugmyndin kviknaði í sunnudagsbíltúr á Þingvöllum með fjölskyldunni. Öxar við ána fór að hljóma í höfðinu mínu í jazzskotinni útsetningu og ég bara varð að koma því á plötu“ segir Karl. Hugmyndin þróaðist yfir í þjóðlög og ættjarðarlög sem heyrast á nýjan og óvæntan hátt. 

Tónleikarnir hefjast kl 16:00 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.    

Hér má sjá dagskrá sumarsins í heild sinni. Stofutónleikaröð Gljúfrasteins 2023 er haldin í samstarfi við vinafélag Gljúfrasteins

Til baka í viðburði