Sólríkir fuglatónar

Sunnudaginn 30. júlí verða sannkallaðir sumartónleikar á Gljúfrasteini. Fram koma Margrét Hrafnsdóttir, sópran, Pamela De Sensi á flautu og Guðríður St. Sigurðardóttir á píanó og flytja þær prógram sitt „Sólríka fuglatóna“ þar sem meðal annars verður frumflutt lag eftir Steingrím Þórhallsson, Vorkvæði, við texta eftir Halldór Laxness. Fág­uð og spenn­andi efnis­skrá fyrir sópr­an, flautu og píanó eftir tón­skáld úr mis­mun­andi átt­um. Skemmti­leg­ar an­dstæð­ur mynd­ast þegar ástríðu­full­ir hljóm­ar Ciardi og Alya­byev bland­ast sam­an við róman­tíska og fág­aða hljóma frönsku tón­skáld­anna. Tónskáld­in sem hér um ræð­ir voru flest uppi á síðari hluta nítj­ándu ald­ar og fyrri hluta þeirr­ar tutt­ug­ustu.  

Margrét Hrafnsdóttir, sópransöngkona lauk árið 1998 8. stigi hjá Sieglinde Kahmann frá Tónlistarskóla Reykjavíkur, en einnig 8. stigi á píanó hjá Selmu Guðmundsdóttur. Margrét lauk söngkennara- og einsöngvaradiplómanámi frá tónlistarháskólanum í Stuttgart undir handleiðslu Michiko Takanashi, Robert Hiller og Franzisco Araiza. Einnig lauk hún prófi frá ljóðadeild tónlistarháskólans hjá Cornelis Witthoefft. Margrét hlaut styrk hjá Wagnerfélaginu í Stuttgart til að fara til Bayereuth og í framhaldi af því hélt hún einnig tónleika hjá Wagnerfélaginu. Hún hefur sótt fjölda námskeiða, þar á meðal hjá Anne Sofie von Otter á uppvaxtarheimili Birgit Nilsson í Svíþjóð. Margrét fór með hlutverk Freyju í Þrymskviðu eftir Jón Ágeirsson sem flutt var í Norðurljósum undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar á haustdögum 2018. Hún átti að fara með hlutverk Ortlinde í uppfærslu Íslensku óperunnar og Sinfoníuhljómsveitar Íslands á „Die Walküre“ eftir Richard Wagner á Listahátíð í febrúar 2022, sem því miður var aflýst. Hún hefur haldið einsöngstónleika í Þýskalandi, Íslandi, Sviss, Danmörku og Svíþjóð. Hún hefur hlotið styrki úr tónlistarsjóði, 2020 hlaut hún þriggja mánaða listamannalaun og sex mánuði fyrir 2021. Margrét starfar sjálfstætt sem söngkona og söngkennari. Árið 2007 gaf hún út ásamt Ólöfu Sigursveinsdóttur, sellóleikara geisladiskinn „Hjartahljóð“, íslensk þjóðlög. Einnig fengu þær styrk frá Hlaðvarpanum til að láta semja fyrir sig verk, „Heimtur“, sem frumflutt var í Berlín 2011 eftir Ingibjörgu Azima. Árið 2015 kom út diskurinn „Vorljóð á Ýli“ með þeim lögum.

Pamela De Sensi tók einleikarapróf á flautu frá Conservatorio G. Perosi á Ítalíu 1998, lauk „Perfection Flutistic“ frá Accademia di Musica Fiesole í Flórens árið 2000 og útskrifaðist frá Conservatorio Superiore di S. Cecilia í Róm árið 2002 með meistaragráðu í kammertónlist með hæstu einkunn. Einnig hefur hún sótt tíma hjá heimskunnum flautuleikurum s.s. C. Klemm, M. Ziegler, F. Reengli, T. Wye, M. Larrieu og J. Galway. Pamela hefur komið fram á tónleikum víðsvegar, bæði sem einleikari sem og í kammertónlist og má þar nefna Frakklandi, Spáni, Englandi, Kasakstan, Mexíkó, Færeyjum, Finnlandi, í Bandaríkjunum og víðsvegar á Ítalíu. Ásamt því að koma reglulega fram hér á Íslandi þar sem hún hefur búið frá árinu 2003, m.a. á tónlistarhátíðunum Myrkum músíkdögum, Tibrá í Salnum, Norrænum músíkdögum, Sumartónleikum í Skálholtskirkju, Menningarnótt, Tectonics, 15:15 tónleikaröðinni og Listahátið í Reykjavík. Árið 2009 var Pamelu boðið að halda tónleika á alþjóðlegri ráðstefnu The National Flute Association í New York og International Flute Festival Flautissimo í Róm árið 2010, 2012 og 2015, International Low Flute Festival í Washington 2018 þar sem hún flutti íslenska tónlist við góðan orðstír. Pamela spilaði á nýju plötu Bjarkar UTOPIA.

Guðríður St. Sigurðardóttir hefur verið virk í tónlistarflutningi hér heima og erlendis í nærri fjóra áratugi. Hún hefur komið fram sem píanóleikari með ýmsum hljóðfæraleikurum, söngvurum og kórum og leikið með fjölmörgum tónlistarhópum og hljómsveitum. Guðríður hefur nokkrum sinnum verið einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þá hefur hún komið fram á vegum Tíbrár í Kópavogi, Listahátíðar í Reykjavík, Tónlistarfélagsins í Reykjavík, Kammersveitar Reykjavíkur og Kammermúsíkklúbbsins. Erlendis hefur Guðríður leikið á tónleikum í Kanada, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Sviss og á öllum Norðurlöndum. Þá hefur hún gert upptökur fyrir útvarp, sjónvarp og geisladiska. Guðríður lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1978. Framhaldsnám stundaði hún við háskólann í Michigan í Ann Arbor og hlaut mastersgráðu í píanóleik árið 1980. Sama ár voru henni veitt 1. verðlaun í píanókeppni á vegum Ann Arbor Society for Musical Arts. Síðar sótti Guðríður einkatíma í píanóleik í Köln í Þýskalandi. Auk þess hefur hún tekið þátt í fjölmörgum námskeiðum m.a. hjá Einar Steen-Nökleberg, Pierre Sancan, John Browning, Dalton Baldwin og Erik Werba. Guðríður hefur komið að skipulagningu ýmissa tónlistarviðburða og lauk MBA námi í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands vorið 2007. Samhliða tónleikahaldi kennir Guðríður píanóleik við Tónlistarskóla Kópavogs, er meðleikari strengja- og blásaranemenda og deildarstjóri píanódeildarinnar. 

Tónleikarnir hefjast kl 16:00 í stofunni á Gljúfrasteini. Miðaverð er 3500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins. Við bendum gestum á næg bílastæði við Jónstótt. 

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni. 

Til baka í viðburði