Skáldlegt skammdegi
16/11 2025Gljúfrasteinn blæs til upplesturs á degi íslenskrar tungu sunnudaginn 16. nóvember. Meistaranemar í ritlist við Háskóla Íslands munu koma sér vel fyrir í stofunni og lesa eigið efni. Viðburðurinn hefst kl. 16 og stendur í klukkustund.
Lesarar eru þau Áslaug Ýr Hjartardóttir, Birta Svavarsdóttir, Bjarni Snæbjörnsson, Elías Knörr, Elín Elísabet Einarsdóttir, Halla Þórðardóttir, María Ramos og Védís Eva Guðmundsdóttir.
Öll velkomin og aðgangur ókeypis!
Áslaug Ýr Hjartardóttir er með bakgrunn úr viðskiptafræði og almennri bókmenntafræði. Hún gaf út barnabókina Undur og örlög (2011) og skáldsöguna Marginalíu nú í vor ásamt nokkrum samnemendum sínum í ritlist.
Birta Svavarsdóttir er með BA-gráðu í kvikmynda- og bókmenntafræði og hefur unnið við textagerð, þýðingar og ýmis ritstörf á fjölbreyttum vettvangi í meira en áratug. Meðfram ritstörfum vinnur hún sem textasmiður og möppudýr hjá Reykjavíkurborg.
Bjarni Snæbjörnsson er leikari og höfundur. Hann útskrifaðist sem leikari frá Listaháskóla Íslands og hefur síðan þá leikið í fjölmörgum verkum bæði á sviði og skjáum. Hann gaf út sjálfsævisögulegu bókina Mennsku (2024) og hefur einnig verið meðhöfundur í nokkrum verkum á sviði, þ.á.m. Góðan daginn, faggi og Skammarþríhyrningnum sem nú er sýnt í Borgarleikhúsinu.
Elías Knörr er póst-íslenskt gjörningaskáld, litskrúðugt frumdýr, fánaberi ginnungastefnunnar og verðlaunahöfundur sem býr undir rúminu þínu. Ljóðabókin hans Áður en ég breytist (2023) var tilnefnd til Maístjörnunnar.
Elín Elísabet Einarsdóttir er myndlistarmaður og teiknari. Hún fæst þessa dagana að mestu við olíumálverk og ljóðlist og vinnur gjarnan verk sín á afskekktum stöðum. Nú í nóvember gefur Elín út ljóðabókina Útverðir í tengslum við samnefnda myndlistarsýningu. Elín lærði teikningu í Myndlistaskólanum í Reykjavík og myndlist í Listaháskóla Íslands.
Halla Þórðardóttir er menntaður dansari og starfaði með Íslenska dansflokknum um árabil. Hún gaf út ljóðabókina Sólin er hringur í fyrra.
María Ramos er ljóðskáld og menntaður íslenskufræðingur. Hún hefur gefið út ljóðabækurnar Salt (2018) og Havana (2020). Báðar komu út hjá Partusi en sú fyrrnefnda var hluti af seríunni Meðgönguljóðum og brot úr henni birtust í safnriti sem kom út árið 2019.
Védís Eva Guðmundsdóttir er með bakgrunn í lögfræði en hefur undanfarin ár starfað við textasmíð og þýðingar, auk þess sem hún rekur sælkeraverslunina HYALIN. Védís hreppti aðalverðlaun Júlíönu - hátíð sögu og bóka vorið 2024 með smásögunni Hvalreki sem var birt í veftímaritinu Stelki og vinnur nú að útgáfu ljóðahandrits.