Síðustu tónleikar sumarsins - Valdimar og Örn flytja íslenskar perlur
31/08 2025Sunnudaginn 31. ágúst kl. 16 er komið að síðustu stofutónleikum sumarsins á Gljúfrasteini! Við kveðjum sumarið með pompi og prakt en engir aðrir en tónlistarmennirnir Valdimar Guðmundsson og Örn Eldjárn Kristjánsson mæta í stofuna og flytja íslenskar perlur.
Valdimar Guðmundsson hefur á síðustu árum haslað sér völl sem einn af ástsælustu söngvurum þjóðarinnar. Hann sló fyrst í gegn með plötunni Undraland með hljómsveit sinni, Valdimar, og hefur eftir það sungið lög úr ýmsum áttum sem hafa ratað á vinsældalista útvarpsstöðva landsins.
Örn Eldjárn Kristjánsson hefur alla tíð sótt innblástur í náttúru Íslands. Hann hefur samið tónlist frá unglingsaldri og spilað á gítar og bassa með ýmsum hljómsveitum og tónlistarfólki, svo sem Tilbury, Júníusi Meyvant, Snorra Helgasyni og fleirum.
Valdimar og Örn hafa undanfarin ár flutt einlæga og hugljúfa dagskrá sem samanstendur af lögum sem Valdimar hefur sungið með hljómsveit sinni í bland við uppáhaldslög þeirra félaga við hin ýmsu tækifæri.
Við hlökkum til að fagna frábæru sumri með ykkur á Gljúfrasteini næsta sunnudag!
Aðgangseyrir er 3.900 kr. og eru miðar seldir í afgreiðslu safnsins á tónleikadegi.
Bílastæði eru við Jónstótt.
Hér má sjá hvernig dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins leit út í sumar
Valdimar Guðmundsson og Örn Eldjárn Kristjánsson.
Ljósmynd: Óskar Kristinn Vignisson