Meyra ástin – safarík og viðkvæm ástarlög

05/08 2025

Gunnlaugur Bjarnason söngvari og Einar Bjartur Egilsson píanóleikari flytja ástarlög frá ýmsum löndum sem ná yfir ríflega 150 ára tímabil.

Stofutónleikaröð sumarsins heldur áfram á Gljúfrasteini og sunnudaginn 10. ágúst kl.16 koma þar fram Gunnlaugur Bjarnason söngvari og Einar Bjartur Egilsson píanóleikari. Á efnisskránni verða ástarlög frá ýmsum löndum sem ná yfir ríflega 150 ára tímabil.  

Einar Bjartur Egilsson stundaði nám í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Listaháskóla Íslands. Hann útskrifaðist þaðan vorið 2013 og lék meðal annars einleik í píanókonsert F. Poulencs með Sinfóníuhljómsveit Íslands það ár. 

Frá 2013–15 stundaði hann meistaranám í Konservatoríinu í Maastricht, Hollandi og í desember 2014 hlaut hann styrk úr Minningarsjóði Birgis Einarssonar. Einar hefur samið tónlist fyrir nokkrar stuttmyndir en síðla árs 2015 gaf hann út hljómplötuna Heimkoma, sína fyrstu plötu með eigin tónsmíðum. Hann hefur spilað á tónlistarhátíðum í Hollandi og á Íslandi og starfað með ýmsum kórum bæði þar og hér heima.  

Núorðið starfar Einar aðallega sem meðleikari með ýmsum tónlistarmönnum, nemendum og kórum. Hann heldur tónleika reglulega ásamt því að spila einleiksverk annað slagið. Undanfarin ár hefur hann gefið út tvær hljómplötur með píanóverkum eftir svissneska tónskáldið Frank Baumann og gaf einnig út breiðskífuna Kyrrð með eigin verkum sumarið 2022. 

Selfyssingurinn Gunnlaugur Bjarnason hóf söngferil sinn með hljómsveitinni RetRoBot sem vann Músíktilraunir 2012. Nokkrum árum síðar sneri hann sér að klassískri tónlist og árið 2020 vann hann söngvarakeppnina Vox Domini og hreppti nafnbótina Rödd ársins. Gunnlaugur er hluti af leikhópnum Animato og hefur sungið í þremur óperum á þeirra vegum, Mærþöll, Gilitrutt og Hliðarspor. Gunnlaugur hefur komið fram víðsvegar, t.d. Þjóðhátíð í Eyjum, Sönghátíð í Hafnarborg, Kúnstpásu, Ung Nordisk Musik, Bergen Festspillene og víða annars staðar. Gunnlaugur hefur lagt mikið upp úr því að vinna náið með tónskáldum og hefur komið að frumflutningi margra verka. Í vetur mun Gunnlaugur svo leika með Sviðslistahópnum Óði í uppfærslu þeirra á óperunni La Bohème í Borgarleikhúsinu. 

Verið velkomin á ljúfa tónleika undir formerkjum ástarinnar þann 10. ágúst í stofu Nóbelsskáldsins. 

Aðgangseyrir er 3.900 kr. og eru miðar seldir í afgreiðslu Gljúfrasteins á tónleikadegi. 

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni.

Bílastæði eru við Jónstótt