Ljúft og létt með Dísu og Bjarna Frímanni

Herdís Anna og Bjarni Frímann flytja verk eftir Bernstein, Fauré, Poulenc, Weill og fleiri á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 14.ágúst. Samstarf Herdísar og Bjarna Frímanns hefur verið mikið og gjöfult frá því leiðir þeirra lágu saman í uppfærslu Íslensku óperunnar á La traviata. Þau hafa haldið tónleika í Hörpu, Salnum í Kópavogi og víða um land, og í fyrra kom út geisladiskurinn Nýir vængir með flutningi þeirra á íslenskum sönglögum.

Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.   

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni. 

Herdís Anna og Bjarni Frímann flytja verk eftir Bernstein, Fauré, Poulenc, Weill og fleiri. 

Herdís Anna Jónasdóttir lauk B.Mus.prófi í söng frá Listaháskóla Íslands árið 2003. Hún stundaði framhaldsnám við Hanns Eisler Tónlistarháskólann í Berlín og lauk þaðan Diplom-prófi 2010 og Konzertexamen árið 2013. Herdís Anna hefur tekið þátt í fjölmörgum óperuuppfærslum í Þýskalandi, Íslandi og Sviss. 2013-18 var hún fastráðin sem einsöngvari við Ríkisóperuna í Saarbrücken, Þýskalandi en er nú sjálfstætt starfandi og búsett í München. Meðal helstu óperuhlutverka hennar eru Adele (Leðurblakan), Violetta (La traviata), Drottningin frá Schemacha (Gullni haninn), Mabel (Pirates of Penzance), Sophie (Werther), Nannetta (Falstaff), Oscar (Grímudansleikur), Romilda (Xerxes) og Musetta (La Bohème).

Herdís hefur haldið einsöngs- og kammertónleika bæði heima og í erlendis og margsinnis komið fram á tónleikum, s.s. með Kammersveit Reykjavíkur, á Carl-Orff tónlistarhátíðinni, með Ríkishljómsveitinni í Saarbrücken, með Sinfóníuhljómsveit Canberra í Ástralíu og með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Herdís hlaut Grímuverðlaunin sem Söngkona ársins 2019 fyrir söng sinn hlutverki Víólettu Valery í uppfærslu Íslensku óperunnar á La traviata og Íslensku tónlistarverðlaunin 2022 fyrir söng ársins.

 

Bjarni Frímann Bjarnason, píanóleikari, víóluleikari og hljómsveitarstjóri lauk prófi í lágfiðluleik frá Listaháskóla Íslands. Árið 2009 bar hann sigur úr býtum í einleikarakeppni Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og lék í framhaldinu lágfiðlukonsert Bartóks með sveitinni á tónleikum. Að því loknu stundaði hann nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Fred Buttkewitz við Tónlistarháskólann Hanns Eisler í Berlín. Bjarni hefur komið fram víðsvegar um Evrópu, bæði sem strengja- og hljómborðsleikari. Hann hefur stjórnað mörgum af fremstu hljómsveitum á Íslandi - Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, CAPUT og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Þá hefur hann samið tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir bæði hérlendis og erlendis. Árið 2012 vann hann fyrstu verðlaun í Hanns Eisler-keppninni í Berlín fyrir frumflutning á píanótilbrigðum eftir Viktor Orra Árnason. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016. Sama ár stjórnaði hann flutningi á óperunni UR_ eftir Önnu Þorvaldsdóttir við óperuna í Osló, í Chur og Basel og á Listahátíð í Reykjavík. Árið 2016 -2017 stjórnaði Bjarni Frímann hljómsveitartónleikum með Björk Guðmundsdóttur í Mexíkóborg, Fílharmóníunni í LA og í Hörpu og spilaði nýverið með Björku á Björk Orkestral tónleikunum í Eldborg og víða um heim. Hann var aðstoðarhljómsveitarstjóri í Évgeni Onegin hjá Íslensku óperunni 2016 og stjórnaði síðan uppfærslu ÍÓ á  Toscu 2017,  Hans og Grétu árið 2018 , La traviata 2019  og uppfærslu ÍÓ á Brothers á Armelhátíðinni í Búdapest árið 2019. Bjarni Frímann var staðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá 2016-2021. 

Til baka í viðburði