Pétur Már Ólafsson mun halda erindi á Gljúfrasteini laugardaginn 6. maí þar sem hann segir frá því þegar hann lenti óvænt í að vinna við höfundarverk Halldórs Laxness.
Pétur Már er bókaútgefandi hjá Bjarti & Veröld. Hann var útgáfustjóri Vöku-Helgafells – forlags Halldórs Laxness – frá 1992-2004. Á þeim tíma skrifaði Pétur Már formála að ýmsum skáldsögum Halldórs, ritstýrði bókum sem unnar voru upp úr höfundarverki hans, skipulagði fyrirlestraraðir um skáldið og þar fram eftir götum. Árið 2004 sagði Pétur Már skilið við Vöku-Helgafell og sama vor tók hann saman efni fyrir vef Gljúfrasteins um Halldór Laxness. Í tilefni af 120 ára afmæli Halldórs árið 2022 opnaði Pétur Már vefinn skaldatimi.is þar sem er að finna efni sem hann tók saman um skáldið. Í erindi sínu, Ljóminn af Laxness, segir hann frá þessu starfi og rifjar upp heimsóknir til Auðar Laxness á Gljúfrastein, meðal annars þegar hún hleypti honum í minniskompur Halldórs í púlti hans.
Viðburðurinn hefst kl. 14. Ókeypis er inn og öll velkomin. Sjáumst á Gljúfrasteini!
Við bendum á að næg bílastæði eru við Jónstótt, hinum megin Köldukvíslar. Erindið er hluti af vordagskrá Gljúfrasteins 2023, hér má sjá dagskrána í heild.