Laxness í köldu stríði

Bandaríski bókmenntafræðingurinn Chay Lemoine mun halda fyrirlestur 15. maí kl. 15.00 á Gljúfrasteini, þar sem hann rekur rannsóknir sínar á afskiptum FBI og CIA af Halldóri Laxness. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.  

 

Á fyrstu árum kalda stríðsins voru harðar deilur á Íslandi um Keflavíkursamninginn svokallaða, sem gerður var 1946 og sem heimilaði Bandaríkjamönnum að hafa hér herstöðvar, þótt heimsstyrjöldinni væri lokið. Þær deilur hörðnuðu enn í aðdraganda þess að Íslandi gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu árið 1949. Halldór Laxness beitti sér af krafti í þessum deilum og ber bók hans Atómstöðin frá 1948 þess glöggt vitni.

 

Á þessum árum fóru fram leynilegar viðræður milli bandaríska sendiráðsins á Íslandi og Bjarna Benediktssonar, þáverandi utanríkisráðherra, um hvernig mætti skaða orðstír Halldórs og draga þar með úr trúverðugleika hans. Inn í það blandaðist FBI lögreglan og meira að segja forstjóri hennar, J. Edgar Hoover, sem hafði sjálfur afskipti af málinu eins og fram kom í skjölum sem Chay Lemoine útvegaði og lagði m.a. fram í grein í Mannlífi árið 2005. 

 

Fyrir nokkrum árum tók Chay Lemoine aftur upp þennan þráð og reyndi m.a. að komast yfir skjöl frá CIA sem einnig hafði fylgst með Halldóri. Í erindinu mun Chay gera grein fyrir þessum leiðangri sínum og svara spurningum viðstaddra.