Kristjana Stefáns og Tómas Jónsson – Jazz og annað skemmtilegt 

Kristjana Stefánsdóttir og Tómas Jónsson koma fram á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 21. ágúst. Efnisskráin verður fjölbreytt og munu þau leika af fingrum fram jazz-standarda að hætti hússins auk þess sem að önnur óvænt dramatík og fegurð slæðist með. 

Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt. 

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni. 
 

Kristjana og Tómas verða á jözzuðum nótum á stofutónleikum Gljúfrasteins.

Kristjana Stefánsdóttir hefur verið leiðandi tónlistarkona í íslenskri jazztónlist um árabil og eru plötur hennar orðnar vel á annan tug en hún hefur verið listamaður hjá Dimmu útgáfu síðan 2006. Hún hefur hljóðritað bæði í eigin nafni og í samstarfi við önnur tónskáld og listafólk. Kristjana starfar reglulega með öðru listafólki, þar má nefna Tómas Jónsson, Ómar Guðjóns, Þorgrím Jónsson, Magnús Trygvason Eliassen, Ragnheiði Gröndal, Halldóru Geirharðsdóttur, Berg Þór Ingólfsson, Jóel Pálsson, Daða Birgisson og Stórsveit Reykjavíkur. Kristjana hefur samið tónlist fyrir leikhús auk þess að leika og búa til sýningar frá grunni. Hún er margfaldur Grímuverðlaunahafi (Íslensku Sviðslistaverðlaunin) en hefur einnig margsinnis verðið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna. 

Tómas Jónsson hefur verið fyrirferðarmikill og virkur í íslensku tónlistarlífi um árabil bæði á sviði og í hljóðverum. Hann hefur gefið út tvær hljómplötur í eigin nafni auk fjölda annarra í samstarfsverkefnum og hljómsveitum auk þess að koma við á aragrúa annarra platna og hljóðupptaka. Tómas er virkur meðlimur í hljómsveitinni ADHD sem hefur gert það gott víða um heim ásamt því að vera meðlimur í hljómsveit Júníusar Meyvants og hljómsveit Jónasar Sigurðssonar svo eitthvað sé nefnt. Af öðru tónlistarfólki sem Tómas hefur starfað með í gegnum tíðina má nefna Ásgeir Trausta, Möggu Stínu, Bríeti, Kristjönu Stefáns, Hjálma, Moses Hightower, Sigríði Thorlacius, Sigurð Guðmundsson, Snorra Helgason, Björgvin Gíslason, Magnús Þór Sigmundsson, Ham, Pálma Gunnarsson, Tómas R. Einarsson, Sigtrygg Baldursson, Rofo Rofo, Samúel Jón Samúelsson, Sölku Sól, Jóel Pálsson, Bubba Morthens og Ellen Kristjánsdóttur. Þá hefur hann komið að sýningum í Þjóðleikhúsinu sem tónhöfundur.


 

Til baka í viðburði