Katrín Halldóra og Hjörtur Ingvi með sól í hjarta 


 

Katrín Halldóra og Hjörtur Ingvi leika listir sínar á stofutónleikum Gljúfrasteins um helgina.

Söng- og leikkonan Katrín Halldóra og Hjörtur Ingvi Jóhannsson píanóleikari koma fram á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 3. júlí. Þau ætla að koma víða við á tónleikunum og flytja íslensk sem og erlend lög sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá þeim báðum. Jazz-skotnir og hugljúfir tónleikar með sól í hjarta! 

Katrín Halldóra Sigurðardóttir er fædd 1989 og er hvað þekktust fyrir túlkun sína á söngkonunni Elly Vilhjálms í samnefndri sýningu sem sýnd var í Borgarleikhúsinu við miklar vinsældir og fyrir hana hlaut hún meðal annars Grímuverðlaunin 2017. Katrín starfar sem leikkona við Þjóðleikhúsið um þessar mundir en hún hefur komið víða við bæði í sjónvarpi og fjölmörgum sviðsuppsetningum hjá Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Hún starfar sem söngkona samhliða leiklistinni og gaf út sína fyrstu sólóplötu á síðasta ári með lögum eftir Jón Múla og Jónas Árnason í nýjum útsetningum eftir Hauk Gröndal sem fylgt var eftir með útgáfutónleikum í Eldborgarsal Hörpu í apríl síðastliðnum. 

Hjörtur Ingvi Jóhannsson er fæddur 1987 og er e.t.v. best þekktur sem hljómborðsleikari og lagahöfundur í hljómsveitinni Hjaltalín. Hann er virkur píanóleikari, tónskáld og útsetjari, auk þess að kenna á píanó við Menntaskólann í tónlist. Hjörtur lærði djasspíanóleik í Konservatoríunni í Amsterdam, þaðan sem hann útskrifaðist 2015. Hann hefur nýlega einbeitt sér að vinnu við sína fyrstu sólóplötu, sem byggist á píanóverkefninu 24 myndum. 

Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.  

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni. 
 

Til baka í viðburði