Gunnar Kvaran sellóleikari býður okkur að sameinast í stofunni á Gljúfrasteini og hverfa inn í undraveröld Bachs. Á milli verkanna mun hann lesa úr ritgerð eftir Halldór Laxness sem fjallar einmitt um sellósvítur Bachs. Þessi ritgerð var gefin út árið 1965 í bókinni Upphaf Mannúðarstefnu og Halldór skrifaði hana sérstaklega vegna flutnings Erlings Blöndal Bengtsson á öllum sellósvítum Bachs í Ríkisútvarpinu sama ár. Það vill svo til að Gunnar stundaði nám hjá Erling, þessum mikla sellósnillingi, í mörg ár.
Gunnar Kvaran er prófessor emeritus frá Listaháskóla Íslands og hefur verið í fremstu röð íslenskra tónlistarmanna í áratugi. Á glæstum ferli sínum hefur hann komið fram sem einleikari í Carnegie Recital Hall, Beethoven Haus, Wigmore Hall, Mendelsonh Haus og á 125 ára minningartónleikum um Pablo Casals í Katalóníu. Hann hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands við mörg tækifæri auk Tívolíhljómsveitarinnar í Kaupmannahöfn og Sinfóníuhljómsveitar Árósa. Gunnar var meðlimur í Tríói Reykjavíkur sem hélt fjölda tónleika, bæði utanlands sem innan og var starfrækt í 30 ár
Kennsluferill hans spannar 60 ár, bæði í Danmörku og hérlendis, þar sem hann hefur útskrifað flesta af bestu sellóleikurum landsins. Hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín í tónlist og mannúðarmálum, meðal annars riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu. Fyrsta bók Gunnars, Tjáning kom út haustið 2021. Hún geymir hugleiðingar um tónlist, trú og tilveruna auk nokkurra ljóða.
Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika.
Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.
Hér má sjá dagskrá sumarsins í heild sinni. Stofutónleikaröð Gljúfrasteins 2024 er haldin í samstarfi við Vinafélag Gljúfrasteins.
Til baka í viðburði