GDRN & Magnús Jóhann blaða í nótnasafni Magnúsar Á. Árnasonar
18/08 2025GDRN og Magnús Jóhann munu blaða í nótnasafni Magnúsar Á. Árnasonar á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 24. ágúst kl. 16. Missið ekki af einstökum viðburði.
Magnús Ársæll Árnason (1894–1980) var listmálari, myndhöggvari, tónskáld og fleira og kom víða við á langri ævi. Á þriðja áratug síðustu aldar var hann við nám í Kaliforníu í Bandaríkjunum og kynntist þar efnilegum rithöfundi sem hét Halldór Laxness. Með þeim tókst vinskapur sem varði út ævi Magnúsar. Magnús fékkst alla tíð við tónsmíðar og samdi m.a. sönglög við texta ýmissa höfunda. Þar á meðal við ljóð eftir Laxness.
Vífill Magnússon, einkasonur Magnúsar og Barböru Árnason, hefur varðveitt nótnasafn föður síns af kostgæfni en veitti Magnúsi Jóhanni, frænda sínum, góðfúslegt leyfi til þess að gramsa í safninu. Nú hafa söngkonan GDRN og píanóleikarinn Magnús Jóhann valið nokkur númer úr nótnasafninu og hyggjast flytja þau á Gljúfrasteini í bland við lög af eigin efnisskrá.
GDRN hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi frá því að hún gaf út sína fyrstu breiðskífu, Hvað ef, árið 2018. Sú hljómplata hlaut fjölda tónlistarverðlauna, tilnefningu til Norrænu tónlistarverðlaunanna og mikla athygli. Síðan þá hefur hún sent frá sér fjölda laga í samstarfi við aðra listamenn og tvær sólóplötur til viðbótar, GDRN (2020) og Frá mér til þín (2024). Auk tónlistarferilsins lék hún eitt aðahlutverkanna í Netflix-seríunni Kötlu.
Magnús Jóhann Ragnarsson hefur verið mikilvirkur í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár sem píanóleikari, upptökustjóri, tónskáld og ýmislegt fleira fyrir fjölda listamanna. Hann hefur gefið út átta plötur undir eigin nafni og tvær stuttskífur. Hann var valinn tónlistarflytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árin 2023 og 2025 og hefur undanfarið annast tónlistarstjórn í sjónvarpsþáttunum Idol. Bubbi Morthens, Friðrik Dór, Bríet, Ingibjörg Turchi, Skúli Sverrisson og Moses Hightower eru á meðal fjölda þverfaglegs listafólks sem hann hefur starfað með.
Stofutónleikar Gljúfrasteins eru haldnir í samstarfi við Vinafélag Gljúfrasteins.
Aðgangseyrir er 3.900 kr. og eru miðar seldir í afgreiðslu safnsins á tónleikadegi.