Faldar perlur – Kolbeinn Jón Ketilsson og Matthildur Anna Gísladóttir 

Matthildur Anna Gísladóttir og Kolbeinn Jón Ketilsson flytja lög og ljóð í stofu skáldsins á síðustu tónleikum Gljúfrasteins þetta sumarið.

Nú er komið að síðustu stofutónleikum Gljúfrasteins sumarið 2023. Við þökkum fyrir frábærar viðtökur og góðar stundir í stofu skáldsins. Á lokatónleikunum sunnudaginn 27. ágúst munu þau Kolbeinn Jón Ketilsson, tenór og Matthildur Anna Gísladóttir, píanóleikari flytja íslensk, norsk, þýsk og ítölsk lög og ljóð.

Kolbeinn Jón Ketilsson hefur sungið mörg stærstu tenórhlutverk óperubókmenntanna, komið fram í óperum á öllum Norðurlöndunum, í Norður-Ameríku og víðsvegar um Evrópu, m.a. í Bayrische Staatsoper í München, Parísaróperunni, San Carlo í Napoli og óperuhúsunum í Genf, Dresden, Marseille, Valencia, Vínarborg, Köln, Lissabon, Muscat og Kaupmannahöfn sem og á Tónlistarhátíðinni í Salzburg. Hann hefur starfað með mörgum þekktustu hljómsveitarstjórum heims, m.a. Antonio Pappano, Lorin Maazel og Zubin Metha. Einnig hefur hann unnið með leikstjórum á borð við Jonathan Miller, Pier Luigi Pizzi og Carlos Saura. Auk þess að syngja í óperum kemur Kolbeinn einnig reglulega fram á tónleikum sem ljóðasöngvari og einsöngvari í hljómsveitarverkum. Kolbeinn er listrænn stjórnandi TonSagaNor. 

Matthildur Anna Gísladóttir lauk bachelornámi í einleik frá Listaháskóla Íslands árið 2007 undir leiðsögn Peter Máté. Einnig lauk hún mastersnámi í meðleik við Royal Academy of Music í London með Andrew West sem aðalkennara og mastersnámi í óperuþjálfun frá Alexander Gibson Opera School í Royal Conservatoire of Scotland og hlaut þar James H. Geddes Repetiteur verðlaunin. Veturinn 2014-15 starfaði hún sem óperuþjálfi hjá RCS. Matthildur er virkur flytjandi innlendis sem erlendis. Hún hefur komið fram á fjölda tónleika og komið að óperuuppsetningum m.a. hjá Íslensku óperunni, Óperudögum, British Youth Opera, Clonter Opera, Lyric Opera Studio í Weimar, Scottish Opera og Royal Academy Opera. Matthildur er fastráðinn meðleikari í Listaháskóla Íslands. 

Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.    

Hér má sjá dagskrá sumarsins í heild sinni. Stofutónleikaröð Gljúfrasteins 2023 er haldin í samstarfi við vinafélag Gljúfrasteins

 

Til baka í viðburði