Erlendur í Unuhúsi (1892–1947) var goðsögn í lifanda lífi en í seinni tíð hefur minning hans sveipast dulúðlegum – jafnvel heilögum blæ. Unuhús þjónaði hlutverki menningarlegrar og félagslegrar stofnunar um árabil, en þar myndaðist suðupottur strauma og stefna í listum og bókmenntum yfir rjúkandi kaffi sem Una og síðar Erlendur skenktu í bolla með bros á vör. Minnisvarða um Erlend má finna í ýmsum verkum gesta hans og vina, til að mynda í portrettverkum Nínu Tryggvadóttur og Louisu Matthíasdóttur, og skrifum Halldórs Laxness og Þórbergs Þórðarsonar.
Á afmælisdegi Erlendar, þann 31. maí næstkomandi, munu Sunneva Kristín Sigurðardóttir og Jón Karl Helgason leiða bókmenntagöngu á slóðum Erlendar í Unuhúsi. Þar verður slegist í för með þeim Halldóri Laxness, Þórbergi Þórðarsyni og Nínu Tryggvadóttur um Grjótaþorpið og Þingholtin og rifjuð upp kynni þeirra og fleiri nafntogaðra listamanna af mæðginunum Unu Gísladóttur og Erlendi í Unuhúsi.
Upphafsstaður göngunnar er við Hljómskálann og hún endar við leiði Erlendar í Hólavallagarði. Gengið er af stað klukkan 20 og gert er ráð fyrir að gangan taki um eina og hálfa klukkustund.
Gangan er samstarfsverkefni Gljúfrasteins – húss skáldsins og Borgarsögusafns. Þátttaka er ókeypis og öll hjartanlega velkomin.
Tilefni göngunnar er opnun sýningarinnar um Erlend í Unuhúsi „En honum á ég flest að þakka“ á Gljúfrasteini og útvarpsþáttaröðin „Litli rauði trékassinn“ sem flutt er á Rás 1, en umsjón með henni hefur Sunneva Kristín Sigurðardóttir. Jón Karl Helgason hefur meðal annars haldið námskeið á vegum Endurmenntunar um Unuhús og þau áhrif sem gestir þess höfðu á íslenskt lista- og menningarlíf.