Erlendur í Unuhúsi – Reykjavíkurganga 

Uppstilling við mikið tilefni, gleðskap eða gjörning. Hér má sjá Steinunni Árnadóttur klædda kjólfötum til vinstri. Erlendur Guðmundsson, Nikkólína Árnadóttir með gítarinn. Við hlið Erlendar er góðvinkona hans Áslaug Árnadóttir, þá Sigríður Björnsdóttir og Margrét Árnadóttir. Jóhanna Guðmundsdóttir leikur á píanóið. Myndin er tekin um 1930.

Úr safni Stefáns Benediktssonar, ljósmyndari óþekktur.

Erlendur í Unuhúsi (1892–1947) var goðsögn í lifanda lífi en í seinni tíð hefur minning hans sveipast dulúðlegum – jafnvel heilögum blæ. Unuhús þjónaði hlutverki menningarlegrar og félagslegrar stofnunar um árabil, en þar myndaðist suðupottur strauma og stefna í listum og bókmenntum yfir rjúkandi kaffi sem Una og síðar Erlendur skenktu í bolla með bros á vör. Minnisvarða um Erlend má finna í ýmsum verkum gesta hans og vina, til að mynda í portrettverkum Nínu Tryggvadóttur og Louisu Matthíasdóttur, og skrifum Halldórs Laxness og Þórbergs Þórðarsonar.

Á afmælisdegi Erlendar, þann 31. maí næstkomandi, munu Sunneva Kristín Sigurðardóttir og Jón Karl Helgason leiða bókmenntagöngu á slóðum Erlendar í Unuhúsi. Þar verður slegist í för með þeim Halldóri Laxness, Þórbergi Þórðarsyni og Nínu Tryggvadóttur um Grjótaþorpið og Þingholtin og rifjuð upp kynni þeirra og fleiri nafntogaðra listamanna af mæðginunum Unu Gísladóttur og Erlendi í Unuhúsi. 

Upphafsstaður göngunnar er við Hljómskálann og hún endar við leiði Erlendar í Hólavallagarði. Gengið er af stað klukkan 20 og gert er ráð fyrir að gangan taki um eina og hálfa klukkustund. 

Gangan er samstarfsverkefni Gljúfrasteins – húss skáldsins og Borgarsögusafns. Þátttaka er ókeypis og öll hjartanlega velkomin.

Tilefni göngunnar er opnun sýningarinnar um Erlend í Unuhúsi „En honum á ég flest að þakka“ á Gljúfrasteini og útvarpsþáttaröðin „Litli rauði trékassinn“ sem flutt er á Rás 1, en umsjón með henni hefur Sunneva Kristín Sigurðardóttir. Jón Karl Helgason hefur meðal annars haldið námskeið á vegum Endurmenntunar um Unuhús og þau áhrif sem gestir þess höfðu á íslenskt lista- og menningarlíf.

 

Til baka í viðburði