Davíð Þór Jónsson við flygilinn á Gljúfrasteini

Davíð Þór Jónsson, píanóleikari og tónskáld, verður við flygilinn á síðustu stofutónleikum Gljúfrasteins þetta sumarið. 

Gljúfrasteinn á sérstakan stað í hjarta Davíðs Þórs og sérstaklega fyrir þær mögnuðu kringumstæður sem stofan er til að skapa á staðnum og láta stundina ráða för meðal hlustenda og gesta. Á þessum tónleikum mun rauntímatónsmíð eiga sér stað og verður flogið af stað með óvissuna í hægri og áttavita í vinstri.  

Tónleikarnir hefjast kl. 16 sunnudaginn 28. ágúst í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt. 

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni.

Davíð Þór Jónsson í stofunni á Gljúfrasteini

Davíð Þór hefur frá unga aldri leikið með allflestum þekktari tónlistarmönnum landsins og komið fram á tónlistarhátíðum víða um heim. Hann hefur verið afkastamikill sem hljóðfæraleikari á margvísleg hljóðfæri, píanóleikari, tónskáld, útsetjari og upptökumaður fyrir fjölda tónlistarmanna. Hann hefur unnið náið með sviðslistafólki og myndlistarmönnum, meðal annars með með Ragnari Kjartanssyni og leikhópnum CommonNonsense. Hann hefur hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin, Grímuverðlaunin og ýmis evrópsk verðlaun fyrir kvikmyndatónlist. 

 

Til baka í viðburði