Björg Brjánsdóttir flytur einleikstónlist fyrir þverflautu á stofutónleikum Gljúfrasteins 26. júli kl. 16:00. Á efnisskránni eru verk eftir Debussy, Bach og de Leeuw.
Stofutónleikar Gljúfrasteins eru haldnir hvern sunnudag frá 28. júní til 30. ágúst. Miðar eru seldir í safnbúð Gljúfrasteins samdægurs og kosta 2500 kr. Ókeypis er fyrir börn á leikskólaaldri.
Athugið að ekki er hægt að bjóða uppá tveggja metra pláss á stofutónleikum.
Björg Brjánsdóttir útskrifaðist af einleikarabraut frá Tónlistarháskóla Noregs vorið 2017 og hefur auk þess stundað nám í þverflautuleik við Tónlistarháskólann í Hannover, Tónlistarháskólann í München og Konunglega danska Tónlistarháskólann. Björg er stofnandi kammersveitarinnar Elju sem hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi undanfarin misseri. Björg er einnig fastur flautuleikari tónlistarhópsins Caput og hefur sinnt ýmsum hljómsveitarverkefnum, þ.á.m. með Fílharmóníuhljómsveitinni í Bergen, hljómsveit Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún er meðlimur flautuseptettsins Viibra sem hefur unnið með Björk Guðmundsdóttur frá árinu 2016 og hefur störf sem stjórnandi skólahljómsveitar Austurbæjar í ágúst 2020.