13 ára barn náttúrunnar

Í öðrum þætti hlaðvarpsseríu Gljúfrasteins Með Laxness á heilanum kynnumst við Jökli Jónssyni, þrettán ára Reykvíkingi sem hefur lesið Barn náttúrunnar, fyrstu skáldsögu Halldórs Laxness nokkrum sinnum. Jökull segist hafa hugsað mikið um það að Halldór hafi bara verið 16 ára þegar hann skrifaði bókina og telur að hann hljóti að hafa verið mjög fullorðinslegur þegar hann var barn og unglingur. 

,,Það er ótrúlegt hversu framúrskarandi íslenskukunnátta barna var í gamla daga, maður sér það í gömlu efni, bókum og öðru," segir Jökull sem er í Hagaskóla og í FÍH þar sem hann lærir jazz. Hann langar að verða tónlistarmaður. Hann spilar á píanó, er ljóðaunnandi og semur sjálfur ljóð.

Jökull las Barn náttúrunnar fyrst þegar hann var 12 ára en mestan áhuga hefur hann á ljóðum Halldórs Laxness. Hann segir að í listsköpuninni búi frelsið ,,ég hef áhuga á allri list þar sem er frelsi til að gera eitthvað og það er skemmtilegt að sjá eitthvað eftir aðra. Það gefur mér innblástur að sjá sérstakt og skemmtilegt listaverk."  

Jökull er einnig ötull baráttustrákur í umhverfismálum og er í stjórn Ungra umhverfissinna. Hann hefur tekið þátt í verkfalli fyrir loftslagið á Austurvelli nær alla föstudaga frá því að mótmælin hófust fyrir tæplega tveimur árum. Hann telur að ef Halldór Laxness væri ungur maður í dag væri hann þar með þeim að mótmæla.
 

Jökull Jónsson les Barn náttúrunnar

Í þáttunum Með Laxness á heilanum er rætt við fólk sem er hugfangið af verkum Halldórs Laxness og hugmyndum hans um líf og tilveru.
Upphafs- og lokalag þáttanna gerði Sigrún Jónsdóttir tónskáld en það er tilbrigði við lag sem Halldór Laxness söng við ljóð sitt Maístjörnuna í viðtalið við Pétur Pétursson, þul á Gljúfrasteini árið 1987. Hægt er að nálgast þættina á  Spotify, á heimasíðu safnsins og á Facebooksíðu þess.

Umsjón hefur Margrét Marteinsdóttir.

Til baka í viðburði