Söfnunar- og sýningarstefna

Söfnunarstefna
Hlutverk Gljúfrasteins er að varðveita og sýna heimili Halldórs Laxness og fjölskyldu hans. Að vera lifandi safn sem stendur vörð um lífsstarf skáldsins. Áhersla er lögð á að safna, varðveita, rannsaka og miðla þekkingu um verk Halldórs Laxness, ævi hans og vinnustað hans og heimili á Gljúfrasteini. Miðla þeim fróðleik meðal annars með sýningum, útgáfum og öðrum hætti

Gljúfrasteinn tekur við öllu því er viðkemur Halldóri Laxness ævi hans og verkum. Ennfremur er öllu safnað sem tengist Auði Sveinsdóttur og lífinu á Gljúfrasteini.

Allir munir Gljúfrasteins skulu skráðir í viðurkennt skráningarkerfi:
-  Munir, ljósmyndir og listaverk skulu skráð í Sarp
-  Bækur skulu skráðar í Gegni

Þessi skráning auðveldar yfirsýn yfir safnkostinn og er hægt að skoða hluta safnskostsins í Sarpi með því að smella hér: Safnkostur Gljúfrasteins í Sarpi. Í Gegni er hægt að leita í bókasafni Gljúfrasteins með því að velja safnið í flipanum til hægri þar sem stendur „Allt efni í Gegni“. Leitið í Gegni með því að smella hér: Leit í Gegni

Söfnunarstefna Gljúfrasteins miðar að því að taka við og halda öllu til haga er viðkemur Halldóri Laxness, verkum hans og ævi. Yfirsýn skal vera yfir öll gögn er tengjast skáldinu og varðveitt eru annars staðar en á Gljúfrasteini s.s. á Landsbókasafni Íslands, Ríkisútvarpinu og Kvikmyndasafni Íslands.

Áhersla er lögð á að varðveita gögn við bestu hugsanlegu aðstæður og völ er á hverju sinni í samvinnu við aðrar stofnanir sem hafa upp á slíkar geymslur að bjóða. Þannig eru handrit, bréf og önnur pappírsgögn best varðveitt á Landsbókasafni Íslands.
 

Sýningarstefna
Gljúfrasteinn sýnir heimili og vinnustað Halldórs og Auðar Laxness. Þar er þekkingu ennfremur miðlað með viðburðum, útgáfu og á vefmiðlum. Fræðsla fyrir öll skólastig er liður í starfsemi safnsins. Safnið hefur frumkvæði að samstarfi vegna sýninga við aðrar menningarstofnanir, háskóla, einstaklinga og félagasamtök. Grunnur sýninga og miðlunar byggist á undangenginni rannsóknarvinnu.

Safnið lánar öðrum söfnum og menningarstofnunum muni til sýningar í samræmi við reglur þar að lútandi.

Endurskoðað í október 2013.