Um safnið

Gljúfrasteinn var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans um hálfrar aldar skeið. Íslenska ríkið keypti húsið og listaverkin árið 2002, þegar öld var liðin frá fæðingu skáldsins og tveimur árum síðar var það opnað almenningi. Fjölskylda skáldsins gaf safninu allt innbú á Gljúfrasteini sem tilheyrði fjölskyldunni með sérstöku gjafabréfi. 

Húsið er safn Halldórs Laxness þar sem heimili og vinnustaður hans eru látin haldast óbreytt. Stærstu vistarverurnar eru stór stofa á jarðhæð og skrifstofa Halldórs á annarri hæð. Þar er bókasafn hans varðveitt svo og vinnupúltið sem hann stóð gjarnan við. Hér má skoða Gljúfrastein í þrívídd

Safnkostur Gljúfrasteins er skráður í menningarsögulega gagnagrunninn Sarp. Munir, listaverk og ljósmyndir eru skráðar í gagnagrunninn, en bókasafn skáldsins er skráð í Gegni. Þá voru handrit, dagbækur, sendibréf og þau skjöl sem fylgdu með í gjöfinni skráð og eru varðveitt á Handritadeild Landsbókasafns Íslands. Á Gljúfrasteini er leitast við að safna öllu því er viðkemur ævi og verkum Halldórs Laxness.

Gljúfrasteinn er viðurkennt safn og starfar skv. safnalögum frá 2011. 

 

image description

Gljúfrasteinn var reistur árið 1945 og arkitekt hússins var Ágúst Pálsson. Ósk Halldórs Laxness var að húsið yrði sveitalegt en samt nútímalegt og laust við allt tildur. Bílskúr, þar sem nú er móttökuhús safnsins, var byggður við húsið og þótti mikil nýlunda í Mosfellssveit á sinni tíð. Ekki síður þótti það sérstakt þegar sundlaug var byggð í garðinum um 1960.

Oft var gestkvæmt á Gljúfrasteini. Þangað komu iðulega erlendir þjóðhöfðingjar á leið sinni til Þingvalla og á fimmta áratugnum voru haldnir tónleikar í stofunni þar sem heimsþekktir listamenn léku fyrir boðsgesti.

Mikill fjöldi listaverka setur sterkan svip á heimilið, meðal annars eftir Svavar Guðnason, Nínu Tryggvadóttur, Jóhannes Kjarval og danska málarann Asger Jorn. Einnig gefur þar að líta útsaumsmyndir eftir Auði Laxness en hún var annáluð hannyrðakona. Húsgögn og innanstokksmunir eru þeir sömu og í tíð Halldórs og Auðar.