Gljúfrasteinsannáll 2021

image

Fátt veit ég öllu skemtilegra en gánga um og skoða hús. Því hús eru einsog bækur, - tákn andans sem býr þar. Einkum þykir mér gaman að gánga inn í garða að húsabaki og virða fyrir mér þær hliðar húss sem vita ekki að alfaravegi,… þannig skrifar Halldór Laxness í Alþýðubókinni sem kom út 1928. Kannski hefur göngufólki, sem var mikið á ferðinni, fundist gaman að ganga bak við Gljúfrastein og skoða húsið frá öllum hliðum - utanfrá en lokað var á Gljúfrasteini nokkuð marga daga á árinu 2021. Heimsfaraldurinn setti safninu skorður. Dagarnir, vikurnar og mánuðirnir einkenndust af óvissu en líka sveigjanleika og úthaldi. Engir gestir voru á ferðinni í upphafi árs vegna sóttvarnarreglna en þegar sól hækkaði á lofti og fór að vora fóru gestir að láta sjá sig aftur. Stofutónleikar voru ekki haldnir yfir sumarmánuðina þar sem ekki var mögulegt að tryggja fjarlægð milli gesta. Í október reyndist mögulegt að standa fyrir tónleikum á ný og komu frábærir listamenn fram í stofunni. Yndislegt var að heyra tónlistina hljóma aftur í húsi skáldsins. Starfsfólk safnsins sat ekki auðum höndum þegar engir gestir voru í húsinu. Áfram var unnið að skráningu í gagnagrunnana Sarp og Gegni.  Þjóðskjalasafn Íslands samþykkti málalykil Gljúfrasteins en safninu ber að haga skjalastjórn og skjalavörlu sinni í samræmi við reglur sem Þjóðaskjalasafn Íslands setur og er bundið í lögum.  

Í netheimum var mögulegt að miðla margvíslegum fróðleik og skemmtun. Tilvitnanir í verk Halldórs Laxness vekja jafnan athygli á samfélagsmiðlum sem og upplestrar skáldsins og verkin sjálf. Á grunni þeirra og ævistarfs skáldsins hvílir starfsemi safnsins á Gljúfrasteini. Gerðar voru margvíslegar tilraunir til miðlunar á netinu en ekkert jafnast þó við að fá gesti í hús. Í þessum annál verður stiklað á stóru og gerð grein fyrir því helsta í starfssemi Gljúfrasteins árið 2021. 


 

BÓKMENNTA- OG HEILSUÁTAK

Í byrjun árs var kynnt til sögunnar bókmennta- og heilsuátakið Laxness119. Hópur fólks frá Íslandi, Frakklandi, Finnlandi, Sviss, Austurríki og víðar tók þátt í átakinu. Það stóð yfir frá 8. febrúar sem var dánardagur Halldórs Laxness, til og með 23. apríl sem var fæðingardagur skáldsins en í ár voru liðin 119 ár frá því að Halldór fæddist. Þátttakendur voru hvattir til að lesa eina eða fleiri skáldsögur eftir Halldór á tímabilinu og að stunda þá hreyfingu sem hentaði því best. Sumir gengu, aðrir skokkuðu eða hjóluðu 119 kílómetra á tímabilinu, sumir gerðu þetta allt á meðan aðrir til dæmis ákváðu að sippa 119 sinnum. Branislav Bédi verkefnastjóri, hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, stýrði þessu verkefni í samstarfi við íslenskukennara við nokkra erlenda háskóla. Hvöttu þeir nemendur sína til að taka þátt í átakinu og skrá sig í hópinn Laxness119 á Facebook. Þátttakendur gátu greint frá afrekum sínum og birt myndir hvort sem það var í formi hreyfingar eða lestri bóka skáldsins. Hér má finna hópinn á Facebook og á Instagram undir myllumerkinu #Laxness119. Átakinu lauk á afmælisdegi Halldórs Laxness með fyrirlestrum á netinu.

image
image
image
Halldór Laxness á göngu, bókastafli og Branislav Bédi stjórnandi viðburðarins á netinu.

SKOTTHÚFA AUÐAR Í PRJÓNAKAFFI 
 
Í byrjun febrúar bauð Heimilisiðnaðarfélag Íslands í samstarfi við Gljúfrastein, í prjónakaffi þar sem skotthúfa sem Auður Laxness hannaði var í aðalhlutverki. Um var að ræða tvö kvöld þar sem farið var yfir sögu skotthúfu Auðar, hvernig hún var upphaflega hjá henni og hvernig hún hefur breyst í áranna rás ásamt því að uppskriftin var birt. Þá var frágangur á húfunni skoðaður og sýnt hvernig skúfur er búinn til, mismunandi gerðir af skúfhólkum voru sýndar. Að lokum var húfan og skúfurinn sett saman. Viðburðinum var streymt á Facebooksíðu Heimilisiðnaðarfélagsins. Umsjón með verkefinu höfðu Guðný María Höskuldsdóttir og Þórdís Halla Sigmarsdóttir. Auður hlaut viðurkenningu fyrir skotthúfuna í samkeppni Álafoss árið 1970. Hún var annáluð hannyrðakona og ýmis handverk hennar prýða safnið á Gljúfrasteini. Auður starfaði með Heimilisiðnaðarfélaginu og sat meðal annars í ritnefnd ársrits félagsins, Hugur og hönd

image
image
image
Skotthúfa eftir Auði, ein ný og útsaumuð húfa og Þórdís Sigmarsdóttir.

ÍSLENSKU ÞÝÐINGARVERÐLAUNIN Á GLJÚFRSTEINI

Guðrún Hannesdóttir hlaut í byrjun árs Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Dyrnar eftir ungversku skáldkonuna Magda Szabó en Dimma gaf bókina út í fyrra. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Guðrúnu verðlaunin við hátíðlega athöfn í stofunni á Gljúfrasteini. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Guðrún hafi þýtt bókina á einstaklega blæbrigðaríkt og kjarnyrt mál svo ætla mætti að sagan hefði verið skrifuð á íslensku.  Í dómnefnd voru Elísabet Gunnarsdóttir, Guðrún H. Tulinius og Þórður Helgason. Alls bárust nefndinni 86 bækur frá tuttugu og einni útgáfu og voru sjö þeirra tilnefndar. Að Íslensku þýðingaverðlaununum standa Bandalag þýðenda og túlka, Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefanda. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar. 

image
image
image
Á myndinni fyrir miðju eru Guðrún Emilsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Hannesdóttir og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson.

DÚFNAVEISLAN Í 55 ÁR 

Þann 29. apríl voru 55 ár liðin frá því að leikritið Dúfnaveislan eftir Halldór Laxness kom í bókaverslanir og sama dag var leikritið frumsýnt í Iðnó. Í viðtölum við blaðamenn sagði Halldór meðal annars að Dúfnaveislan væri skemmtunarleikur, skrifuð fólki til skemmtunar og ef hún nær ekki þeim tilgangi er hún tilgangslaus.  Sveinn Einarsson  leikhússtjóri lét þess getið á blaðamannafundi að mikill áhugi væri á leikritinu og að þegar væri uppselt á tvær sýningar. Halldóri þóttu þetta góð tíðindi síst vil ég verða til þess að setja leikhúsið á hausinn, sagði Halldór. Skömmu áður hafði leikritið Prjónastofan Sólin, eftir Halldór, verið frumsýnt í Þjóðleikhúsinu og sagðist hann á blaðamannafundinum vera ánægður með þá dóma sem verkið hefði fengið.  Halldór lét þess getið að Prjónastofan Sólin og Dúfnaveislan væru mjög ólík leikhúsverk, Prjónastofan meira á breiddina, Dúfnaveislan meira á dýptina. Dúfnaveislan var afar vinsæl og gekk á annað ár, alls urðu 64 sýningar. 
 

image
image
image

SAFNIÐ ALLTAF OPIÐ Í NETHEIMUM 

Meðan heimsfaraldur geisaði og safnið var lokað vildi starfsfólk Gljúfrasteins leggja sitt af mörkum til að opna safnið upp á gátt á netinu og gleðja þannig fólk þegar samkomubann var í gildi. Meðal þess sem boðið var uppá var skoðunarferð í þrívídd um safnið. Mitt er þitt og hjá mér áttu heima er leiðarstefið í ferðalaginu sem gestum var boðið í um Gljúfrastein. Þannig gat fólk hvar sem er í heiminum ferðast innandyra á Gljúfrasteini og rennt augum yfir alla þá fegurð sem þar er að finna og um leið notið þess að hlusta á Hamrahlíðakórinn syngja, Hjá lygnri móðu. Hér er myndbandið.  

image
image
image

OFT LOKAÐ Í RAUNHEIMUM

Allt árið var starfsemin á Gljúfrasteini í samræmi við gildandi sóttvarnareglur á hverjum tíma. Frá áramótum og út apríl var lokað fyrir gestum þar sem ekki var hægt að tryggja  fjarlægðarmörk milli þeirra. Göngufólk var mikið á ferðinni. Garðurinn umhverfis húsið er alltaf opinn gestum og gangandi. Vinsæl gönguleið er upp með Köldukvísl að Helgufossi. Önnur áhugaverð leið er hin svokallaða skáldaleið sem liggur frá Gljúfrasteini framhjá Laxnesi og að Guddulaug, sem Halldór Laxness lýsti sem himneskum heilsubrunni í bókinni  Í túninu heima: Til útnorðurs í túnjaðri Laxnestúngu er uppsprettulind umlukt hárri grasbrekku á þrjár hliðar; þar var vatnsból þess fátæka fólks sem búið hafði í Laxnestúngu. Eingin konúngshöll hefur haft þvílíkt vatnsból, skrifar Halldór í endurminningarsögunni Í túninu heima: Faðir minn trúði á þessa lind. Ég trúi líka á þessa lind. Frá lindinni sem kölluð er Guddulaug liggur leið að Mosfellskirkju.  Hér er kort af svæðinu með helstu kennileitum 

image
image
image

GRÆN SKREF Á GLJÚFRASTEINI  

Síðastliðið vor fékk safnið viðurkenningu Umhverfisstofnunar þegar fyrsta græna skrefið var tekið. Skrefin eru fimm og nú vinnur starfsfólk safnsins að því að taka næsta skref í þágu umhverfisins. Að ýmsu er að hyggja á þessari vegferð en starfsfólk hefur frá opnun safnsins árið 2004 verið meðvitað um mikilvægi nægjusemi og virðingar fyrir umhverfinu. Rafmagn hefur verið sparað eftir fremsta megni, hlutir endurnýttir þegar það hefur verið hægt, plast, pappír, pappi og gler flokkað. Einnig hugað að umhverfinu, innkaupum og forðast að kaupa einnota hluti. Í því sambandi má nefna að frá upphafi hefur gestum Gljúfrasteins verið boðið uppá sérsaumaðar og því margnota skóhlífar áður en farið er inn í safnið. Í vor var keypt jarðvegstunna þar sem lífrænum úrgangi er safnað til niðurbrots. 

ÆVISAGA SKÁLDSINS Á STORYTEL 

Um miðjan maí var tilkynnt að ævisaga Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson væri komin á Storytel og er það höfundur sem les. Bókin sem er um 800 blaðsíður kom út árið 2004. Í kynningu á bókinni segir að myndin sem höfundur hennar dregur upp af skáldinu sé fræðandi og skemmtileg en umfram allt ögrandi og óvænt. Einnig segir þar að íslensk þjóð hafi frá upphafi látið sig varða gerðir og skrif síns mesta rithöfundar. Í þessari bók fái hún loksins að kynnast manninum sjálfum. Halldór Guðmundsson talaði um tímabilið þegar hann var að rita ævisöguna í hlaðvarpsþætti Gljúfrasteins Með Laxness á heilanum.

ALÞJÓÐLEG BÓKMENNTAVERÐLAUN HALLDÓRS LAXNESS 

Rithöfundurinn Elif Shafak hlaut  alþjóðleg bókmenntaverðlaun sem kennd eru við Halldór Laxness. Hún tók við þeim í Veröld - húsi Vigdísar. Verðlaunin eru veitt höfundum sem eru þekktir fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum. Að þessu tilefni  kom hún í heimsókn á Gljúfrastein. Elif Shafak er fædd árið 1971. Hún hefur sent frá sér nítján bækur, þar af tólf skáldsögur og hafa bækur hennar verið þýddar á 55 tungumál. Tvær skáldsögur Shafak hafa komið út í íslenskri þýðingu. Það eru Heiður í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur og bókin 10 mínútur og 38 sekúndur sem Nanna Þórisdóttir þýddi, en sú bók var meðal annars tilnefnd til hinna virtu Booker verðlauna. Hún hefur auk þess hlotið fjölda annarra tilnefninga og viðurkenninga fyrir verk sín. Shafak er þekkt baráttukona fyrir mannréttindum og þá sérstaklega kvenréttindum, málefnum hinsegin fólks og ýmissa jaðarhópa.  

Þetta var í annað sinn sem Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness voru afhent en það var breski rithöfundurinn Ian McEwan sem fyrstur hlaut verðlaunin, 2019. Verðlaunin verða afhent annað hvert ár í tengslum við Bókmenntahátíð í Reykjavík.  

Að verðlaununum standa forsætisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðherra, Íslandsstofa, Gljúfrasteinn, Forlagið, sem er útgefandi verka Halldórs Laxness auk Bókmenntahátíðar í Reykjavík. Í valnefnd 2021 sátu Ian McEwan, Eliza Reid forsetafrú og Stella Soffía Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík. 

image
image
image
Elif Shafak í vinnustofu Halldórs og Ian McEwan rithöfundur.

VEISLA FYRIR BÓKAUNNENDUR  

Sem fyrr segir eru Alþjóðlegu bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness afhent í tengslum við Bókmenntahátíð í Reykjavík sem í ár var dagana 8.- 11. september. Fjöldi erlendra rithöfunda, blaðamanna og útgefenda kom til landsins á hátíðina en auk þeirra komu margir íslenskir höfundar fram á henni. Þetta var í fimmtánda sinn sem Bókmenntahátíð í Reykjavík er haldin og er hún helsti viðburðurinn í íslensku bókmenntalífi og hefur verið það síðan árið 1985. Á heimasíðu hátíðarinnar segir að hún þyki meðal merkustu bókmenntahátíða í Evrópu og að nálægð við lesendur sé aðalsmerki hátíðarinnar. Rithöfundar, blaðamenn og útgefendur sem tóku þátt í hátíðinni heimsóttu Gljúfrastein en safnið er eitt af bakhjörlum hátíðarinnar. Samstarf við Bókmenntaborgina hefur ávalt verið gott og gefandi. Í september komu fulltrúar frá þrjátíu  bókmenntaborgum UNESCO, skoðuðu Gljúfrastein og hlýddu á Auði Övu rithöfund lesa og flytja skemmtilegt erindi. 

image

BÓKIN UM VEGINN Í HEILA ÖLD  

Á árinu voru 100 ár frá fyrstu útgáfu íslensku útgáfunnar á Bókinni um veginn eða Dao De Jing 道德經 eins og hún heitir á frummálinu. Síðan hefur ritið verið þýtt fjórum sinnum, þar af einu sinni úr frummálinu, en þessi fyrsta endursögn eftir bræðurna Jakob J. Smára og Yngva Jóhannesson hefur þó ávallt notið mestrar hylli, líklega einkum og sér í lagi eftir að Halldór skrifaði formála að 2. útgáfu hennar sem út kom fyrir 50 árum eða árið 1971. Í tilefni þessara tímamóta var efnt til málþings um tengsl verka Halldórs og daoismans (einnig ritað taóismans) sem og dulspeki í víðari skilningi. Í átta erindum var einkum fjallað um áhrif heimspeki daoismans á verk Halldórs og túlkanir hans sjálfs. Jafnframt var leitað fanga víðar í íslenskri bókmenntasögu og grenslast fyrir um annars konar dulspekileg áhrif á Nóbelsskáldið. Það var stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, sem hélt viðburðinn í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg, UNESCO og Gljúfrastein.  

HLJÓMPLÖTUSAFN HALLDÓRS OG STOFUTÓNLEIKAR 

Stofutónleikar á Gljúfrasteini hafa um árabil verið haldnir á sumrin og hafa gestir verið ákaflega ánægðir með þá. Í sumar reyndist ekki mögulegt að standa fyrir tónleikum vegna samkomutakmarkana, en þegar rofaði til í haust var ákveðið að bjóða gestum til tónleika. Guðni Tómasson, tónlistarunnandi og dagskrárgerðarmaður á Rás 1, reið á vaðið og talaði við gesti um hljómplötur Halldórs Laxness og lék nokkur tóndæmi. Viðburðurinn var tekinn upp og var sendur út 31. desember á RÚV. Í tenglsum við viðburðinn setti Guðni saman lagalista á Spotify með úrvali úr tæplega 200 platna safni Halldórs Laxness.   Á fyrstu tónleikunum komu fram Tómas R. Einarsson og Ragnhildur Gísladóttir ásamt Ómari Guðjónssyni og Davíð Þór Jónssyni. Flautuhópurinn Viibra spilaði á Gljúfrasteini viku síðar og flutti frumsamin verk. Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari og Kristinn Sigmundsson óperusöngvari spiluðu og sungu í stofunni svo undir tók í Mosfellsdal. Bassaleikarinn og tónskáldið Ingibjörg Elsa Turchi kom næst fram ásamt hljómsveit sinni. Hallveig Rúnarsdóttir óperusöngkona og Árni Heimir Ingólfsson píanóleikari slógu svo lokatóninn á stofutónleikum Gljúfrasteins árið 2021. Hér má hlýða á Hallveigu og Árna Heimi flytja Les Chemins de l'amour eftir Francis Poulenc í stofu skáldsins.  

image
image
image
Guðni Tómasson, hljómsveitin Viibra, Helga Bryndís Magnúsdóttir og Kristinn Sigmundsson

VARÐVEISLA SAFNKOSTSINS 

Á árinu fékk safnið afnot af herbergi undir geymslu í Hlégarði sem var rúmbetri en eldri geymslan í sama húsi. Flutningur á milli geymslna gekk vel, sett var upp nýtt hillukerfi og því hægt að skipuleggja geymsluna frá grunni. Raða vel í hillur, bæta merkingar, ljósmynda, pakka og merkja. Í vor kom í ljós að nauðsynlegt var að tæma herbergið aftur þar sem endurbætur standa yfir í Hlégarði. Ekki reyndist öruggt að hafa safnkostinn þar á meðan á framkvæmdum stóð. Mikið ryk og rask. Því þurfti enn á ný að finna aðra geymslu undir safnkostinn á meðan að framkvæmdir standa yfir. Í geymslu eru nú skráðir 330 safngripir en safnkosturinn í heild telur 1534 færslur í Sarpi. Þar kennir ýmissa grasa t.d. hattasafn, töluvert af eldhúsáhöldum, mottum, skrautmunum, stólum og smærri húsgögnum, rafmangstækjum og eldri sýningar. Þar er einnig töluvert af bókum sem falla undir skráninguna í Gegni.  

Þórdís Baldursdóttir textílforvörður hefur farið yfir alla textíla sem eru á sýningum safnsins, lagfært, hreinsað og bætt það sem þurfti og jafnframt skráð ástand þeirra. Textílar eru afar viðkvæmir safngripir og er það mikill stuðningur við safnið að hafa svona hæfa manneskju í þessu verkefni. Vinnan í geymslunni og við textílana var styrkt af Safnasjóði

Þá var áfram unnið við ljósmyndasafnið. Ákvörðun var tekin um að skrá starfsmyndir safnsins í Sarp. Starfsmyndir eru þær myndir sem teknar eru af margvíslegri starfsemi safnsins, t.d. af viðburðum, af sýningum safnsins, safnfræðslu á þess vegum, húsinu og umhverfi þess og fleira. Þannig eru myndirnar hugsaðar sem heimildir um starfsemi safnsins sjálfs. Áfram var unnið með sögulegar ljósmyndir, en í safninu er töluvert af myndum úr albúmum og filmum ásamt formlegum myndum sem skáldið hefur fengið að gjöf í gegnum tíðina. Þar hafa verið skráðar 4228 ljósmyndir og um tvö hundruð myndir eru aðgengilegar almenningi á Sarpur.is.  

Á meðan safnið var lokað fyrir gestum vegna samkomutakmarkanna reyndist mögulegt að vinna af krafti að skráningum í Sarpi. Segja má að grettistaki hafi verið lyft í skráningarmálum á árinu. 

image
image
image

MÁLALYKILL GLJÚFRASTEINS

Gljúfrasteinn fékk málalykil sinn samþykktan af Þjóðskjalasafni Íslands að nýju. Gildistími hans er fimm ár í senn. Hann er ætlaður til notkunar fyrir skjöl málasafn safnsins. Stuðst er við efnisflokkunarkerfi þar sem skjöl eru flokkuð eftir efni. Markmiðið með slíku kerfi er að ná saman öllum skjölum um sama málefni svo unnt sé að rekja gang mála á auðveldan hátt. Efnisflokkunarkerfi gefur enn fremur möguleika á því að halda skyldum málum saman. 

JAGÚARINN Í BORGARHOLTSSKÓLA 

Einn af safngripunum hér á Gljúfrasteini er Jagúar árgerð 1968. Bíllinn stendur venjulega í hlaðinu yfir sumarmánuðina en á veturna er hann hafður inni. Í október var undirritaður samstarfssamningur við Borgarholtsskóla um viðgerð á bílnum. Verkefnið felur í sér að slípa lakkið, sprauta, ryðbæta og margt fleira. Verkefnið verður unnið af nemendum skólans undir styrkri handleiðslu fagkennara. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki næsta vor og að Jagúarnum verði ekið í hlað á afmælisdegi skáldsins 23. apríl 2022. 

image
image
image

JÓNSTÓTT VIÐ GLJÚFRASTEIN  

Árið 2019 festi ríkið kaup á eigninni Jónstótt undir starfsemi Gljúfrasteins. Var það gert í kjölfarið á samþykktri þingsályktunartillögu frá 2016 og skýrslu starfshóps sem skilaði þarfagreiningu og skýrslu til mennta– og menningarmálaráðherra 2017. Alþingi samþykkti 30. mars 2020 að ráðstafa í aukafjárlögum fyrir árið 2020 sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldursins. Í áætluninni var gert ráð fyrir viðhaldi á ýmsum fasteignum og fjárfestingum á vegum rískisins. Jónstótt við Gljúfrastein var inni í þessum tillögum. 

Frá því að Gljúfrasteinn opnaði sem safn 2004 hefur vinnuaðstaða starfsfólks verið óviðunandi. Það verða mikil tímamót og jákvæður áfangi að geta sett upp vinnuaðstöðu starfsfólks á efri hæð Jónstóttar. Gestamóttaka og safnbúðin verða á neðri hæð hússins. Þaðan er mikilfenglegt útsýni yfir að Gljúfrasteini. Á árinu 2021 var unnið að endurbótum á húsinu að utan og brúin yfir Köldukvísl endurgerð. Hún verður göngubrú fyrir göngufólk og gesti sem heimsækja Gljúfrastein. Í samþykktu skipulagi Þingvallavegar er gert ráð fyrir að núverandi aðkomu að Gljúfrasteini verði lokað og gestum beint upp Jónstóttarveg þar sem móttaka safnsins verður.  
   
Nú í lok árs 2021 er ákveðnum áfanga lokið en ekki liggur ekki fyrir hvenær næstu skref verða tekin. Eftir er að ljúka viðgerðum innanhúss, ganga frá bílastæði, hanna umhverfi hússins og endurgera Jónstóttarveg.   

image
image
image

FARSKÓLI Í STYKKISHÓLMI OG STARFSMANNAFERÐ Á AKRANES 

Á vormánuðum brá starfsfólk safnsins undir sig betri fætinum og fór í ferð á Akranes. Heimsótt var meðal annars Byggðarsafnið í Görðum þar sem safnstjórinn Jón Allansson gaf greinargóða kynningu á nýrri grunnsýningu safnsins og þeim tækjabúnaði sem notast er við á henni. Einnig var Héraðsskjala- og bókasafn bæjarins heimsótt og meðal annars fræðst um varðveislu ljósmynda hjá Nönnu Þóru Áskelsdóttur. Farskóli safnmanna var haldinn í október, að þessu sinni í Stykkishólmi. Yfirskrift hans var Áföll og ábyrgð. Raddir framtíðarsýnar. En þetta eru hvoru tveggja liður í endurmenntun starfsfólks safnsins. 

TÍMAMÓT 2022 

Næsta ár verður ár tímamóta en þá verða 120 ár liðin frá fæðingu Halldórs Laxness. Þeirra tímamóta verður minnst meðal annars með opnun sýningar í móttökunni á Gljúfrasteini um Sölku Völku en 90 ár eru síðan bókin kom út í tveimur hlutum 1931-32. Annað stórafmæli er framundan þegar 70 ár verða liðin frá því að Gerpla kom út. Í samstarfi við Bókasafn Mosfellsbæjar eru fyrirhugaðir bókmenntaviðburðir og fræðsla. Í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands verður boðið upp á námskeið um Sölku og Gerplu haustið 2022. Unnið var að undirbúningi og mótun hugmynda þessara viðburða og fræðsludagskrár í lok árs 2021. 

Vonandi tekst að laða að gesti aftur á safnið eftir krefjandi tímabil vegna heimsfaraldursins. 

Starfsfólk Gljúfrasteins óskar velunnurum gleðilegra jóla og með þakklæti fyrir árið sem er að líða.