Skáldatími

Skáldatími 1963

Árið 1963 kom Halldór Laxness dyggum lesendum sínum mjög í opna skjöldu með bók sinni Skáldatíma.

Hún er þekktust fyrir það uppgjör skáldsins sem þar fer fram við Stalín og kommúnismann.
 
 
 
Skáldatími hefst á frásögn Halldórs af vist hans í klaustri í Lúxemborg þegar hann var um tvítugt. Hann greinir meðal annars frá ritun Vefarans mikla frá Kasmír, dvöl sinni í Ameríku í lok þriðja áratugarins, segir þætti úr ævi Sjálfstæðs fólks og ritar um upphaf Heimsljóss. Mikill hluti bókarinnar fer hins vegar í lýsingar Halldórs á ferðum hans um Sovétríkin á fjórða áratugnum og uppgjör hans við kommúnismann. Þar er meðal annars að finna frásögn hans af því þegar Vera Hertsch var handtekin í Moskvu að honum viðstöddum. Hún hafði þá eignast barn með íslenskum námsmanni, Benjamín H.J. Eiríkssyni.

Eftir að Skáldatími kom út spurði Matthías Johannessen Halldór að því í útvarpsþætti hvernig hann hefði getað farið úr herbergi Veru Hertsch til Skandinavíu og skrifað Gerska ævintýrið þar sem hann fjallaði mjög svo lofsamlega um Sovétríkin og þá menn sem þar voru við völd á þessum tíma. Halldór svaraði:

„Á þetta hef ég alltaf litið þannig sem ég hafi orðið áhorfandi að slysi. Ég hef iðulega orðið áhorfandi að slysi, t.d. á götum stórborga, og þetta hef ég alltaf litið á sem eitt af þeim. En þetta voru þeir tímar þegar kerfi Stalíns var svo sterkt, svo sovereignt, að mér er ekki kunnugt um að nokkurt ríki hafi sótt fanga í hendur Rússa undir Stalín. Það kom fyrir að útlendir menn væru teknir þar, kommúnistar, og fluttir í fangabúðir, m.a. einn danskur kommúnistískur þingmaður. Það var eins óhugsandi að hrífa rússneskan kommúnistískan fanga úr höndum Stalíns eins og að taka mann upp lifandi sem eimreið hefur keyrt yfir. Það eina sem stóð í mínu valdi var að segja hlutaðeigandi persónum frá því sem hafði gerst, þeim mönnum sem málið var skylt. Meira stóð ekki í mínu valdi að gera. - Harmleikir voru, eins og sagt er stundum, þrettán í dúsíninu á þeim dögum."

Fleyg orð
 
„Stalín var tortrygginn maður að eðlisfari og þó enn tortryggnari gagnvart vinum sínum en óvinum. Kommúnistum trúði hann aldrei. Það er talið erfitt að finna í samanlögðum æviferli hans nokkurt dæmi þess að hann hafi treyst manni, utan einum og aðeins einum; en þeim manni trúði hann líka í blindni. Sá maður var Adolf Hitler." 
(Leiklist í Moskvu)

„Erlendur Guðmundsson [í Unuhúsi], embættismaður tollstjórnarinnar, sem var vinur minn, sagði að þó flestar skoðanir í bókinni [Vefaranum mikla frá Kasmír] væri honum fjarstæðar mætti ég ekki fleygja henni, og bætti því við að sér þætti betra að lesa skemtilegar bækur til stuðníngs þeim skoðunum sem hann væri mótfallinn en leiðinlegar til framdráttar hugmyndum sem hann aðhyltist, - eftilvill er þetta grundvallarhugsjónin í lýðræði."
(Óinnblásinn ræðumaður)

„Ég get ekki auðveldlega farið að átta mig á manni fyren ég er búinn að finna í honum sveitamanninn eða einhvern álíka prímfaktor menskan. Þessvegna skildi ég líka á stundinni þann vitra amríkan sem einusinni kom til mín og sagði mér að í New York einni væru hundrað þúsund bænda sem lifðu og hrærðust alla sína hundstíð undir samskonar siðferðilögmáli og Bjartur í Sumarhúsum."
(Sjálfstætt fólk, þættir úr ævi bókar)