Guðsgjafaþula kom út árið 1972 þegar Halldór Laxness stóð á sjötugu og með henni lauk hann ferli sínum sem skáldsagnahöfundur. Hann átti aðeins eftir að rita minningasögur sínar fjórar, auk ritgerða.
Sagan fjallar um Bersa Hjálmarsson, Íslands-Bersa, sem er síldarspekúlant, en fyrirmynd hans er Óskar Halldórsson útgerðarmaður. Sagan gerist á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar og fjallar á skoplegan hátt um vel þekkta atburði í atvinnulífi og stjórnmálum, einkum þó sögu síldarinnar. Sögumaður er ungur rithöfundur sem einnig fæst við fuglaútgerð en Íslands-Bersi er hins vegar aðalsöguhetjan. Um hann segir í sögunni: „Í orði kveðnu var hann ... talinn fyrir stærsta síldarflota Norðurlands, mörgum síldarverksmiðjum, fleiri söltunarbryggjum en aðrir menn, og þeim stærstu; auk óteljandi verðmæta í öðrum stöðum. En ég efast um að nokkurn dag í öll þessi ár hafi eyrir staðnæmst það leingi í vasa hans, að hann gæti kallað hann sinn að kvöldi."
Guðsgjafaþula er umfram allt skáldsaga en þar styðst Halldór Laxness við ýmsar heimildir, ritaðar og munnlegar. Í lok sögunnar skrifar hann „Til athugunar lesendum" þar sem hann segir meðal annars: „Margir munu veita því athygli að fylgt er fordæmi íslendíngasagna í því að skírskota til heimildarmanna sem hefðu getað verið til þó hitt sé eins víst að svo hafi ekki verið. Fyrir bragðið er ekki vænlegt til árángurs að leita í hillum hjá bókamönnum að ritum sem í er vitnað í textanum." Halldór Laxness kallar þetta form „essay-roman" eða skáldsögu í ritgerðarformi. Hann gaf minningasögum sínum um bernskuna sem fylgdu í kjölfarið þetta sama heiti og kallast Guðsgjafaþula þannig á við Í túninu heima, Úngur eg var, Sjömeistarasöguna og Grikklandsárið er út komu 1975-80.
Fleyg orð
Fleyg orð
„Við erum meyr þjóð. Hvenær sem komið er að kjarna máls hjá okkur, þá er það orðið viðkvæmt mál; best að tala varlega og helst þegja; okkar haldreipi, prestkonumórallinn, tekur við."
(6. kafli.)
„Ég er ekki nógu vel að mér í marxisma; stundum finst mér þessi kenníng vera endurleysa frá rótum; einhverskonar blendíngur af geðveiki úr biflíunni og bulli úr þjóðverjum."
(19. kafli.)
„Það er bara eitt sem ég hef á móti einglum yfirleitt, innlendum sem útlendum. Þeir fljúga lóðréttir einsog jötunuxar."
(17. kafli.)
(19. kafli.)
„Það er bara eitt sem ég hef á móti einglum yfirleitt, innlendum sem útlendum. Þeir fljúga lóðréttir einsog jötunuxar."
(17. kafli.)