Gerpla

Gerpla 1952

Árið 1952 kom Gerpla út og olli hún miklu fjaðrafoki þar sem með henni réðst Halldór Laxness í það stórvirki að skrifa „Íslendingasögu".

Gerpla er nútímaskáldsaga með yfirbragð íslenskra fornbókmennta hvað varðar efni, orðnotkun og stíl. Halldór nýtti sér m.a. Fóstbræðrasögu og þann hluta Heimskringlu Snorra Sturlusonar sem fjallar um Ólaf helga Haraldsson Noregskonung. Sagan er framan af háðsádeila sem stefnt er gegn hetju- og ofbeldisdýrkun hetjunnar, Þorgeirs Hávarssonar, og skáldsins, Þormóðs Kolbrúnarskálds, en þegar háðinu sleppir tekur harmleikurinn við. Samfélagi Íslendingasagna er ekki lýst sem glæstu tímabili í sögunni heldur sem tíma grimmdar og ofbeldis.

Þorgeir Hávarsson vill helst drepa sér til frægðar. Þormóður Bessason, síðar nefndur Kolbrúnarskáld, sveiflast milli ástkvenna sinna, leitar harmsins og ógæfunnar til að geta þjónað listinni. Ólafur digri Haraldsson tekur á sig mynd einræðisherra og harðstjóra. Skáldið hefur ort mikið ljóð um Ólaf Haraldsson og fær loksins tækifæri til að flytja honum kvæðið fyrir Stiklarstaðarorrustu en sér þá hvern mann konungurinn hefur að geyma og segist þá ekki muna lengur kvæðið.

Í Gerplu hæðist Halldór að hinni fornu hetjuhugsjón Íslendingasagna en boðskapur sögunnar beindist ekki síður að samtíma hans því að trú á vald og ofbeldi hefur löngum verið helsta bjargráð þeirra landstjórnarmanna sem ekkert óttast meira en þegna sína. Þeir sem vildu gátu séð þarna deilt á Hitler og Stalín - leiðtogadýrkun - en í bókinni upphefur skáldið einnig andstæðu þeirra samfélaga þar sem ríkja sterkir leiðtogar eða einræðisherrar. Slíkt fyrirmyndarsamfélag fann hann meðal inúíta á Grænlandi. Frumbyggjarnir þekkja ekki annað en að allir séu jafnir, lifi í sátt og samlyndi - og þeir hafa enga leiðtoga.

Fleyg orð

„Þorgeir Hávarsson kvaðst þann einn harm bera sér í hjarta, að hafa enn eigi fundið konúng er svo væri grimmur og mikilvirkur að hann þyrmdi aldrei konu né barni, en sökti kaupmönnum niður í það díki sem eingi botn var í."
(21. kafli.)
„Því verða menn skáld og hetjur, að þeir búa eigi við hamíngju sína."
(11. kafli. Þormóður Kolbrúnarskáld.)
„... lítill er sá ótti sem landstjórnarmönnum býður af erlendum ofureflismönnum hjá því sem af þegnum sínum."
(23. kafli.)