Atómstöðin

Atómstöðin 1948

Atómstöðin var afar umdeild þegar hún kom út árið 1948 enda fjallaði hún um mikið hitamál í íslensku samfélagi.

Íslandsklukkan, sem Halldórs Laxness sendi frá sér næst á undan Atómstöðinni, var fyrsta skáldsaga hans sem naut almennrar hylli íslenskra lesenda en nú vakti hann deilur á ný þar sem hann tók á afar viðkvæmu efni: „sölu landsins" eða „þátttöku þjóðarinnar í vestrænu varnarsamstarfi", eftir því hvar menn skipuðu sér í fylkingar í málefnum Keflavíkurstöðvarinnar.

Atómstöðin segir frá Uglu, bóndadóttur að norðan, sem kemur til Reykjavíkur að læra á orgel. Hún ræður sig í vist hjá Búa Árland, sem er þingmaður og heildsali, og sækir tónlistartíma hjá Organistanum. Inn í söguna blandast meðal annars samningar um bandaríska herstöð í Keflavík, auk flutnings á beinum Jónasar Hallgrímssonar frá Danmörku til Íslands en í bókinni er hann kallaður Ástmögur þjóðarinnar. Búi er einn þeirra valdhafa sem taka þátt í beinamálinu og sölu landsins. Þannig fléttar Halldór ýmis viðkvæm hitamál úr samtímanum inn í söguna. Ævinlega hefur verið litið svo á að Organistinn eigi sér fyrirmynd í Erlendi í Unuhúsi en fremst í Atómstöðinni ritar höfundurinn: „Þessi bók er samin í minníngu Erlends í Unuhúsi en honum á ég flest að þakka."

Atómstöðin hefur einkum verið túlkuð sem framlag Halldórs Laxness til herstöðvamálsins. Hann var harður andstæðingur Keflavíkurstöðvarinnar og þær persónur sem fylgja henni að málum í sögunni fá ekki góða einkunn. Hins vegar er Atómstöðin ekki síður ástarsaga þeirra Búa og Uglu. Og sagan hefur einnig verið túlkuð sem ádeila á vestrænt siðferði þar sem Organistinn er í aðalhlutverki. Hann dregur í efa hefðbundin kristileg og borgaraleg gildi þannig að „öll vanahugsun varð að klúrum öfgum, almennar viðurkendar hugmyndir að dónaskap í samtali við þennan mann". Þá má einnig geta þess að í Atómstöðinni kemur í fyrsta sinn fram hugtakið „atómskáld" sem síðar átti eftir að festast rækilega í sessi í tungumálinu.

Fleyg orð

„Karlmönnum stendur á sama þó kvenmenn drepi sig, sagði ég. Ef nokkuð er, þá verða þeir fegnir. Þá losna þeir við alt rex."
(15. kafli. Ugla.)

„Lauslátar konur eru ekki til, sagði organistinn. Það er hjátrú. Afturámóti eru bæði til kvenmenn sem sofa þrjátíu sinnum hjá einum karlmanni og kvenmenn sem sofa einu sinni hjá þrjátíu karlmönnum."
(3. kafli. Organistinn.)

„Það er til ein og ein kona þannig gerð, sagði hann, að kallmaður gleymir fyrri ævi sinni einsog marklausu hjómi á þeirri stund sem hann sér hana fyrst, reiðubúinn að klippa sundur öll skyldubönd sem binda hann umhverfinu, snúa við og fylgja þessari konu á veraldarenda."
(18. kafli. Búi Árland.)