Leikritin

Halldór Laxness situr ásamt leikurum Þjóðleikhússins við uppsetningu á Íslandsklukkunni árið 1985. Leikgerð og leikstjórn Sveinn Einarsson.

Halldór Laxness var alla tíð mikill áhugamaður um leiklist. Að eigin sögn var hann ekki nema tólf ára gamall þegar hann sá sýningu Leikfélags Reykjavíkur á Fjalla-Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar og hreifst mjög af. Nokkrum árum síðar skrifaði hann leikdóm um sýningu félagsins á Syndum annarra eftir Einar H. Kvaran. Á ferðum sínum erlendis gerði hann sér far um að sækja leikhús, auk þess sem hann hafði jafnan mikinn áhuga á kvikmyndalistinni. Hann fékk því snemma góða yfirsýn og þekkingu á leiklist samtíðarinnar. Til marks um það má m.a. hafa leikdóma þá sem hann skrifaði í Alþýðublaðið veturinn 1931-32.

Það var þó ekki fyrr en árið 1934, þegar hann er orðinn fullþroska skáldsagnahöfundur, að hann semur fyrsta leikrit sitt, Straumrof. Það var sýnt í Iðnó síðla hausts sama ár við fremur daufar undirtektir. Leikritið var þó þýtt á dönsku og mun skáldið hafa gert sér vonir um að koma því á framfæri erlendis, en þær rættust ekki. Eftir þetta samdi Halldór ekkert leikrit í tuttugu ár. Það var ekki fyrr en árið 1954 að hann sendi aftur leikrit frá sér, Silfurtúnglið, sem leikið var í hinu nýstofnaða Þjóðleikhúsi. Leikritið var einnig sýnt í Moskvu og Helsinki. Þýska leikritaskáldið Bertolt Brecht, sem var kunningi Halldórs, las það og þótti ekki mikið til koma.

Um 1960 var Halldór orðinn afhuga skáldsagnagerð og ákvað þá að snúa sér að leikritun. Þau þrjú leikrit sem frá honum koma á fyrri hluta sjöunda áratugarins, Strompleikurinn (1961), Prjónastofan Sólin (1962) og Dúfnaveislan (1966), eru að ýmsu leyti merkileg í sögu íslenskra leikbókmennta. Þetta eru fyrstu leikrit sem hér eru skrifuð í anda módernismans og ryðja að því leyti braut fyrir þá ungu höfunda sem sigldu brátt í kjölfarið með módern verk, skáld á borð við Odd Björnsson, Guðmund Steinsson, Erling E. Halldórsson o.fl. Á leiksviðinu var gengi þeirra misjafnt: Strompleikurinn vakti almenna forvitni og áhuga, þó að ekki væru allir á eitt sáttir um ágæti verksins, Prjónastofan Sólin fékk dræmari viðtökur, þegar það var sýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1966, en Dúfnaveislan varð afar vinsæl í sýningu Leikfélags Reykjavíkur sama ár. Velgengni hennar varð þó ekki til að ýta undir frekari leikritasmíð hjá Halldóri og eftir þetta sneri hann sér á ný að prósanum. Hann hélt þó áfram að vera í sambandi við leikhúsið, enda nutu ýmsar leikgerðir skáldsagna hans mikilla vinsælda, þegar hér var komið sögu, einkum þó leikgerðirnar á Íslandsklukkunni, sem var frumsýnd við opnun Þjóðleikhússins árið 1950, og Kristnihaldi undir Jökli, sem L.R. frumsýndi árið 1970. Þá hafa verið gerðar kvikmyndir og sjónvarpsmyndir eftir nokkrum sögum hans.

Hin frumsömdu leikrit Halldórs Laxness hafa yfirleitt fengið fremur neikvæða dóma. Samanburðurinn við skáldsögurnar hefur verið þeim óhagstæður og ef frá er talin Dúfnaveislan hefur ekkert þeirra orðið sérlega vinsælt á sviðinu. Það olli honum sjálfum miklum vonbrigðum. Af einkabréfum hans til þýðenda, umboðsmanna og annarra má sjá að hann gerði sér góðar vonir um framgang þeirra, ekki síst erlendis. Þessar vonir voru alls ekki óraunhæfar ef litið er á stöðu skáldsins á þessum tíma: hann er tiltölulega nýbakað Nóbelsskáld með góð sambönd víða um lönd og gat gengið að því vísu að nýjum verkum hans yrði sýndur áhugi. En leikritin vöktu ekki mikla hrifningu.

Jón Viðar Jónsson tók saman