Þegar Halldór Laxness dvaldi í Hollywood undir lok þriðja áratugarins gerði hann tilraun til að koma sér á framfæri sem handritshöfundi. Veturinn 1927-1928 skrifaði hann drög að tveimur kvikmyndahandritum sem hann hugðist nota til að greiða götu sína í draumaborginni. Annað þessara handrita var frumgerð að sögunni um Sölku Völku og er því fyrirrennari skáldsögunnar sem kom út í tveimur hlutum fáum árum síðar.
Handritið birtist fyrst á prenti í Tímariti Máls og menningar árið 2004, bæði í ensku frumútgáfunni sem og í íslenskum búningi Silju Aðalsteinsdóttur. Í tímaritinu fylgir Halldór Guðmundsson handritinu að Sölku Völku úr hlaði með inngangi sem birtist einnig hér að neðan. Í inngangi Halldórs kemur fram að lengi vel voru handritin tvö talin glötuð en reyndust svo vera í gögnum sem Stefán Einarssonar prófessor í Baltimore afhenti Einari, syni Halldórs Laxness.
Hér á þessari síðu birtum við þessar greinar og þessi handrit:
- „Halldór í Hollywood - Kvikmyndahandritið „Salka Valka” birt í fyrsta sinn“ eftir Halldór Guðmundsson segir frá kvikmyndahandriti Halldórs A Woman in Pants sem seinna varð að skáldsögunni Salka Valka.
- „Drög að kvikmyndahandriti um lífið við sjávarsíðuna á Íslandi“ er kvikmyndahandrit Halldórs sem seinna varð að skáldsögunni Salka Valka.
- „Some outlines of a Motion Picture from Icelandic Coast-Life“ er kvikmyndahandrit Halldórs sem seinna varð að skáldsögunni Salka Valka á ensku.